Fréttir
  • Opnun þjónustumiðstöðvar

Formleg opnun þjónustumiðstöðvarinnar

Þjónustumiðstöðin samanstendur af bæjarskrifstofu Bolungarvíkurkaupstaðar, afgreiðslu Íslandspósts, gjaldkeraþjónustu Landsbankans og þjónustu Sýslumanns Vestfjarða og Tryggingastofnunar.

Í máli Elíasar Jónatanssonar, bæjarstjóra, kom fram að Bolungarvíkurkaupstaður hefði haft frumkvæði að viðræðum milli þeirra aðila sem standa að þjónustumiðstöðinni eftir að ljóst var að Sparisjóður Norðurlands, áður Sparisjóður Bolungarvíkur, sameinaðist Landsbankanum og fyrir lá að starfssemi bankans yrði alfarið flutt til útibús bankans á Ísafirði. Þá var einnig fyrirséð að þjónusta póstsins í Bolungarvík yrði verulega skert.

Viðræðurnar leiddu til samkomulags sem fól í sér að grundvallar þjónusta aðilanna yrði áfram til staðar í Bolungarvík og að bæjarskrifstofan myndi flytja af efri hæð Ráðhússins á neðri hæð þess. Samkomulagið fól einnig í sér makaskipti bæjarins og Landsbankans á neðri hæð Ráðhússins, í eign bankans, og annarri hæð Aðalstrætis 21, í eign bæjarins. Aðalstræti 21 er því nú að fullu í eigu Landsbankans og Ráðhúsið er í sameiginlegri eign Bolungarvíkurkaupstaðar og ríkisins.

Þetta hafði jafnframt í för með sér að hluti þeirra starfa sem áður voru hjá bankanum og póstinum yrðu áfram í Bolungarvík. Einnig kom fram í máli Elíasar að fleiri staðir á landsbyggðinni hefðu fylgst grannt með framgangi mála hér.

Sævar Þ. Ríkarðsson, útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði, sagði að það hafi verið mjög ánægjulegt að taka þátt í uppbyggingu þjónustumiðstöðvarinnar. Hann nefndi einnig að á fáeinum öðrum stöðum væri ýmist verið að fara svipaða leið eða að stefnt væri að því. Sævar færði þjónustumiðstöðinni málverk eftir Georg Guðna að gjöf og einnig gaf bankinn félagsmiðstöðinni Tópaz PC-tölvur sem nota má í tölvuleikjakeppnir.

Jónas Guðmundsson, sýslumaður, tók einnig til máls og lofaði breytingarnar og taldi að vel hefði til tekist. Það væri einkar ánægjulegt að hér hefði tekist að skapa fjölbreyttan og skemmtilegan vinnustað ólíkra aðilar sem væri gaman að eiga aðild að.

Framkvæmdirnar voru að langstærstum hluta fjármagnaðar með 10 milljóna króna fjárframlagi sem fékkst frá ríkinu á fjárlögum 2016 eftir að Bolungarvíkurkaupstaður lagði fram tillögu þess efnis við fjárlaganefnd Alþingis á fundi með nefndinni síðastliðið haust.