Fréttir

Frönsk stemning í hjarta Bolungarvíkur

Á Verbúðinni í Bolungarvík getur þú nú upplifað franska stemningu á notalega kaffihúsinu French Touch Café. Þar starfar Hayat, eigandi og rekstraraðili kaffihússins, sem opnaði í nóvember 2024 og hefur síðan notið mikilla vinsælda meðal bæjarbúa.

Hayat ólst upp í stórborg í Frakklandi og segist hafa saknað kaffihúsamenningarinnar sem þar ríkir, að geta stungið sér inn á hlýjan stað, fengið sér gott kaffi og eitthvað girnilegt með. „Það vantaði svolítið þennan stað hér í Bolungarvík,“ segir hún. „Ef maður vildi þessa stemningu þurfti maður oft að fara yfir á Ísafjörð. Nú þarf það ekki lengur.“

Franskur bragur á heimavelli

French Touch Café er í samstarfi við Verbúðina Pub, og Hayat segir stuðninginn þaðan hafa verið ómetanlegan. Hún vinnur ein á kaffihúsinu en er með stóra drauma.

„Mig langar að þetta verði staður sem fólk heyrir af út um allt land, jafnvel í Reykjavík. Hér færðu alvöru franska upplifun með íslenskum hráefnum.“

472387745_122100845078717070_509506769387139492_n

Í vetur er í fyrsta sinn fastur opnunartími hjá French Touch Café, alla virka daga frá 6:30 til 14:00, sem er kærkomið fyrir Bolvíkinga. 

Hayat gerir nánast allt sjálf frá grunni, ekki bara bakkelsið, heldur franskar, majónes, krem og kökur. Hún leggur áherslu á fersk og staðbundin hráefni, og notar t.d. alvöru vanillu í custardið sitt.

„Ég vil að þetta sé hágæða upplifun,“ segir hún. „Mér finnst líka gaman að taka eitthvað sem Bolvíkingar hafa alltaf borðað, eins og fisk, og búa til nýjan rétt úr því , eitthvað ferskt og öðruvísi.“

Hlýtt og heimilislegt

Á hverjum degi býður Hayat upp á rétt dagsins og nýtt bakkelsi. Hún vill að gestir fari frá staðnum saddir, glaðir og endurnærðir.

„Fólk á að fara héðan með bros á vör, fullt af orku eftir bragðgóða og næringarríka máltíð. Ég vil að gestum líði eins og þeir hafi verið að hugsa vel um sig.“

Hayat leggur mikið úr því að stemningin á French Touch Café sé hlý og heimilisleg.

„Ég vil að þegar fólk kemur hingað, líði því smá eins og það sé að koma heim.“

Draumar og framtíðarsýn

Hayat hefur áhuga á að efla tengslin milli franskrar og íslenskrar matarmenningar, og nefndi að hún hafi verið að hugsa um að kaupa kleinur frá heimamönnum til að selja á kaffihúsinu. Hayat talaði einnig um að henni þætti gaman að halda námskeið í framtíðinni, t.d. fá einhvern til að kenna íslenska kleinugerð.

„Mér finnst mikilvægt að halda svona staðbundinni þekkingu á lífi.“

Síðustu dagar hafa verið líflegir á French Touch Café, og Hayat segir að gestir séu duglegir að mæta. Það sé greinilegt að Bolvíkingar hafi tekið staðnum opnum örmum og kunni að meta þessa viðbót í heimabæinn sinn.

French Touch Café er kærkomin viðbót í samfélagið í Bolungarvík og við óskum Hayat til hamingju og alls hins besta með framhaldið.

Hér má sjá Facebook síðu French Touch Café.

20251105_092640


Fréttir

    Enginn Skjalaflokkur er tengdur.

Fréttir

    Enginn Skjalaflokkur er tengdur.