Fréttir
  • Bolungarvík

Frumkvöðlasetur auglýsir

Frumkvöðlasetrið er samstarfsverkefni bæjarins og Atvinnuþróunarfélagsins og er markmið þess að bjóða uppá aðstöðu og stuðning fyrir bolvíska frumkvöðla og frumkvöðlafyrirtæki sem eru að stíga sín fyrstu skref. 

Frumkvöðlasetrið er í glæsilegu húsnæði við Aðalstræti 14 (Ráðhúsið) þar sem skrifstofur bæjarins voru áður til húsa. Þar eru vinnustöðvar sem leigðar verða frumkvöðlum gegn vægu gjaldi ásamt aðgengi að kaffistofu og fundaraðstöðu. 

Það er von Bolungarvíkurkaupstaðar að Frumkvöðlasetur Bolungarvíkur geti verið vettvangur fyrir frumkvöðla af öllum stærðum og gerðum sem leiði til aukinnar nýsköpunar og atvinnuþátttöku í Bolungarvík. 

Verkefnið er, eins og áður sagði, unnið í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða sem verður frumkvöðlum innan handar fyrstu skrefin og hljóta allir frumkvöðlar í Frumkvöðlasetrinu 20 ráðgjafatíma frá félaginu fyrsta árið. Auk þeirra er Arnarlax ehf. styrktaraðili verkefnisins, en fyrirtækið er með skrifstofur sínar í Ráðhúsinu. 

Áhugasamir frumkvöðlar geta sótt um aðgang að Frumkvöðlasetrinu með því að senda umsókn á netfangið atvest@atvest.is. Þar skal koma fram grunnupplýsingar um frumkvöðul eða frumkvöðlafyrirtækið ásamt lýsingu á starfsemi og helstu markmiðum næsta árið. Atvinnuþróunarfélagið mun meta umsóknir og tilkynna umsóknaraðilum um hvort þeir séu gjaldgengir í Frumkvöðlasetrið.