Fréttir
  • Þorsteinn Másson, starfsmaður Arnarlax í Bolungarvík, Anna S. Jörundsdóttir, einn frumkvöðla Dropa, og Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri

Frumkvöðlasetur í Bolungarvík

Fram kemur í fundargerð bæjarráðs frá 23. ágúst að ráðið hefur falið Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra, að vinnað að máli frumkvöðlaseturs í Bolungarvík. 

Eldisfyrirtækið Arnarlax hf. leigir þegar skrifstofu á hæðinni fyrir starfsmann sem fyrirtækið réð til starfa í Bolungarvík og netsamband og kaffiaðstaða í frumkvöðlasetrinu er í boði félagsins. 

Frumkvöðlafyrirtækið True Westfjords ehf. sem framleiðir þorskalýsi undir vörumerkinu Dropi leigir einnig skrifstofuaðstöðu og þá hefur námsfólk einnig leigt sér aðstöðu á hæðinni.  

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri, segir um þessa nýbreytni í Bolungarvík:

Ég hef orðið var við áhuga frumkvöðla á að fá aðstöðu til að vinna að nýsköpunarverkefnum og til að bregðast við þeim áhuga hef ég haft samband við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og óskað eftir samstarfi um hugsanlegt frumkvöðlasetur í Bolungarvík. Framkvæmdastjóri þess hefur tekið vel í framtakið og vill bjóða þeim frumkvöðlum sem hugsanlega sækjast eftir að koma í frumkvöðlasetrið ráðgjafatíma hjá ráðgjöfum AtVest. 

Fjölmörg áhugaverð nýsköpunarverkefni eru nú þegar í Bolungarvík og með tilkomu frumkvöðlaseturs er komin vettvangur til að fjölga þeim enn frekar.

Á mynd: Þorsteinn Másson, starfsmaður Arnarlax í Bolungarvík, Anna S. Jörundsdóttir, einn frumkvöðla Dropa, og Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri