Greining á áhrifum fiskeldis á Vestfjörðum
Til að meta áhrif fiskeldis á Vestfirði næstu ár var reynt að meta fjölda starfa, íbúa sem gætu byggt afkomu sína að einhverju leyti á fiskeldi og áætlað söluverðmæti afurða. Til stuðnings voru hafðar til hliðsjónar upplýsingar frá Noregi, Skotlandi og Færeyjum og reynslutölur af uppbyggingunni á Íslandi.
Horft var á framleiðslu á Vestfjörðum í árslok 2019 og framleiðslumöguleika næstu ár með tilliti til leyfa á framleiðslu. Miðað við hámarkslífmassa af frjóum laxi samkvæmt áhættumati er áætlað að framleiðsla verði um 50 þúsund tonn í sjókvíaeldi á Vestfjörðum miðað við 80% nýtingu af hámarkslífmassa sem er 64.500 tonn.
- Áætlað að fjöldi beinna starfa á Vestfjörðum verði allt að 640.
- Áætlað að fjöldi óbeinna/afleiddra starfa á Vestfjörðum verði allt að 390.
- Áætlað er að allt að 1.850 íbúar gætu byggt afkomu sína á fiskeldi að einhverju leyti.
- Áætlað söluverðmæti afurða er um 46 ma.kr.
- Áætlað skattaspor þegar framleiðsla er í hámarki yrði 2,2 ma.kr. Þar af nema greiðslur til sveitarfélaga 1,1 ma.kr.
Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein á Vestfjörðum og miklu skiptir fyrir samfélag og atvinnulíf svæðisins að fiskeldi verði sjálfbær og kröftug atvinnugrein.