Fréttir
  • Verðlaunahafar

Grunnskóli Bolungarvíkur fær viðurkenningu

Skólinn fékk gæðamerki fyrir þrjú verkefni sem eiga það sammerkt að hafa notað upplýsingatækni í samstarfi við evrópskt skólafólk og hafa sýnt fram á nýbreytni og nýsköpun í skólastarfi. Auk þess fékk eitt þessara verkefna sérstök landsverðlaun.

The eShow! er kvikmyndaverkefni þar sem nemendur gerðu fréttir, auglýsingar, stuttmyndir og þætti. Fimm lönd unnu saman að verkefninu sem tengdist tungumálum, náttúrufræði, íþróttum og fleiri fögum. Elín Þóra Stefánsdóttir fékk gæðamerki fyrir verkefnið.

Username: children, Password: rights, er verkefni sem tengdist samfélagsfræði og tungumálum og fjallar um réttindi barna, flóttafólk og frið. Nemendum var skipt í pör og hópa þvert á lönd, stundaðar umræður og horft á myndbönd. Sex lönd tóku þátt. Elín Þóra Stefánsdóttir fékk gæðamerki fyrir verkefnið.

Sound by sound, step by step together er fjögurra landa samstarfsverkefni sem sameinaði list, tónlist, leiklist og látbragðsleik. Meginmarkmið þess var að vekja skapandi virkni barna og líka næmi fyrir þörfum annarra. Margskonar verkfærum og aðferðum var beitt í verkefninu, allt frá dansatriðum til forritunar til rafbóka og allt þar á milli. Zofia Marciniak fékk gæðamerki og landsverðlaunin fyrir verkefnið. 

Gæðamerkin og verðlaunin eru ætluð til þess að vekja athygli á góðum árangri skóla og hvetja þá til áframhaldandi þátttöku í evrópsku samstarfi og notkunar upplýsingatækni en auk þessara verkefna Grunnskóla Bolungarvíkur hlutu tíu önnur verkefni gæðamerki. 

Landskrifstofa eTwinning á Íslandi, Rannís, veitti viðurkenningarnar þann 28. september síðastliðinn í húsnæði menntavísindasviðs Háskóla Íslands í Reykjavík. 

eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum, svo nokkuð sé nefnt, allt með hjálp upplýsingatækni.

eTwinning er hluti af Erasmus+ menntaáætlun ESB og var hleypt af stokkunum árið 2005. Í hverju landi er landskrifstofa sem styður þátttakendur endurgjaldslaust. Hér á landi gegnir Rannís því hlutverki. Yfir þúsund íslenskir kennarar hafa tekið þátt í eTwinning á einn eða annan hátt, og telja samstarfsverkefnin brátt sjö hundruð. Sjá nánar á www.etwinning.is.