Fréttir
  • Hjólað óháð aldri

Hjólað óháð aldri

Hjólið geta bæði starfsfólk Bergs og aðstandendur nýtt til að hjóla með vistmenn um bæinn.

Síðasta haust kallaði Heilsubærinn eftir hugmyndum að verkefnum og Guðrún Dagbjört Guðmundsdóttir lagði það til að Heilsubærinn safnaði fyrir hjóli sem á ensku kallast Triobike taxi og er sérstaklega hannað fyrir einn hjólreiðamann og farþega. 

Söfnun Heilsubæjarins gekk vonum framar og var hjólið fengið með aðstoð verkefnisins Hjólafærni sem veitir hjólreiðafólki ýmsa þjónustu. 

Upphaflega stóð til að Sigrún Gerða Gísladóttir færi sem farþegi í fyrstu ferðina þar sem hún var frumkvöðull að Heilsubænum Bolungarvík en hún lést áður en af því gat orðið þann 22. maí síðastliðinn. Hjólið var afhent sama dag og útför hennar var gerð frá Ísafjarðarkirkju. 

Það var Guðrún Dagbjört sem afhenti Bergi hjólið en Magnús Ingi Jónsson, formaður Heilsubæjarins, fór fyrstu ferðina með þær vinkonurnar Helgu Guðmundsdóttur og Jónínu Sveinbjarnardóttur. 

Almennt námskeið á hjólið verður haldið á Bergi fyrir aðstandendur mánudaginn 11. júní kl. 13:00-14:30 og sama námskeið verður á Eyri á Ísafirði sama dag kl. 17:00-18:30 sem aðstandendur geta einnig sótt. 

Hreyfingin Hjólað óháð aldri var stofnuð árið 2012 í Kaupmannahöfn til að gefa eldri borgurum tækifæri á að komast aftur á hjól og yfirvinna skerta hreyfigetu. Lausnin var farþegahjól og fylgdu sveitarfélög um alla Danmörku í kjölfarið og hefur verkefnið verið tekið upp í mörgum löndum.