Hugvekja 2025
Á fyrsta sunnudegi í aðventu héldu Bolvíkingar upp á tendrun ljósanna þar sem samfélagið kom saman til að kveikja á jólatrénu og fagna komandi hátíð.
Steinunn Diljá Högnadóttir flutti einlæga og hlýja hugvekju þar sem hún rifjaði upp jólahefðir æskunnar og minnti okkur á það sem raunverulega skiptir máli: samvera með okkar nánustu og að muna að njóta.
Hér er hugvekja Steinunnar.
Góðan dag,
Mér var falið þetta verkefni að flytja jólahugvekju og svara því hvað jólin þýða fyrir mér.
Hugurinn leitaði strax til jóla æskunnar þar sem mamma og amma bökuðu ósköpin öll af
smákökum, lagkökum og laufabrauðum, skepnurnar í sveitinni fengu extra góða gjöf á
aðfangadag og það var passað að það væri ljós í hverju rými um kvöldið, hjá bæði skepnum og fólki. Mamma var oftast með purusteik eða kalkún í jólamatinn og það tók aldrei lengri tíma að ganga frá eftir matinn en á aðfangadagskvöld því það var síðasta hindrunin áður en farið var í pakkana.
Jólin eru byggð upp á hefðum og það getur verið snúið að finna út hverjar þeirra henta þegar fólk fer að búa sjálft með maka og eignast börn. Maðurinn minn vill helst fá hamborgarhrygg og mér finnst jólin ekki koma nema þau séu sótt, nú veit ég ekki hvort fleiri kannist við það en það er hefð frá langömmu á Ósi sem við höfum haldið í. Við hjónin höfum haldið okkar eigin jól í rúman áratug en það var við fæðingu eldra barnsins okkar fyrir tæpum sjö árum sem ég áttaði mig á að það gengi ekki upp að ætla að mæta í vinnuna, sinna börnum, klára framkvæmdir, skúra gólfin, elda matinn, baka sortirnar, skreyta húsið, kaupa gjafirnar, mæta í boðin, föndra með börnunum, strauja fötin, þrífa alla skápa og innstu kima heimilisins og samt sofa nóg, hvílast vel og ná að njóta dagsins en ekki missa meðvitund á sófanum af þreytu, sem gerist þegar verið er að skúra eftir miðnætti á Þorláksmessu og börnin vöknuð klukkan fimm. Það varð því eitthvað að breytast því þetta voru ekki jólin sem okkur langaði að halda og jólin eiga að mínu mati ekki að vera kvíðavaldur. Við borðum heldur ekki jólamatinn í holrýminu bak við þvottavélina og nægur tími aðra daga ársins fyrir þau þrif.
Nú klárum við gjafirnar í nóvember, þrífum húsið líkt og venjulega og höldum því í horfinu eftir megni, förum í sund á aðfangadag, eldum það sem alla langar í og opnum pakkana jafnt og þétt yfir daginn. Með ljós í hverju herbergi, jólin sótt á útitröppunum og gleði í hjartanu þó sortirnar séu fjórar, ekki fjórtán. Megnið af þeim bragðast alltaf betur hjá ömmu og mömmu hvort eð er, sama hvað ég reyni.
Ég vona að þið eigið gleðilega, stresslitla aðventu og þau jól sem þið óskið með ykkar besta fólki.
Takk fyrir mig

