Fréttir
  • Íþróttamaður ársins 2016, tilnefningar og viðurkenningar

Íþróttamaður ársins 2016, tilnefningar og viðurkenningar

Nikulas_JonssonNikulás Jónsson var tilnefndur af knattspyrnudeild UMFB/VESTRA fyrir knattspyrnu. Nikulás lékk 20 af 22 leikjum Vestra í 2. deild síðast liðið sumar og skoraði eitt mark. Hann kom fjórum sinnum inn á í leikjum í Lengjubikarnum og þrisvar inn á leiki í Bikarkeppni KSÍ en Vestri endaði í 6. sæti 2. deildar í sumar með 29 stig. 

Undanfarin ár hefur Nikulás barist við meiðsli og gat lítið æft með liðinu síðast liðinn vetur. Það stöðvaði hann þó ekki í að æfa vel og oft á tíðum einn. 

Í æfingleikjum í vor og fyrstu leikjum sumarsins átti Nikulás ekki fast sæti í liðinu og byrjaði á bekknum. Hann tók því með því að leggja enn meira á sig á æfingum og koma að krafti inn á þá leiki sem hann spilaði. Þegar vantaði bakvörð í liðið stökk Nikulás á þá stöðu og tryggði sér fast sæti í liðinu með góðri frammistöðu og það í stöðu sem hann hafði lítt spilað. Hann var fljótur að aðlagast og átti mjög gott sumar með liðinu. Þetta lýsir einna best persónugerð Nikulásar, hann eflist við mótlæti og er tilbúinn að taka hagsmuni liðsins fram yfir eigin hagsmuni. 

Nikulás hefur spilað 103 leiki fyrir meistaraflokk BÍ/Bolungarvík/Vestra í öllum keppnum frá því að hann lék sinn fyrsta meistaraflokksleik og 2011. Niklás er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í Bolungarvík. Hann er mikill félagsmaður og ávallt tilbúinn að aðstoða ef eftir því er leitað. Hann er metnaðarfullur, mætir vel á æfingar og æfir aukalega sjálfur. Þá hefur hann sýnt gríðarlegan aga í að æfa einn til að yfirstíga erfið meiðsli sem skilaði sér í kraftmiklum leik hans í sumar með Vestra. 

Tilnefningar til íþróttamanns ársins

Tilnefningarnar fara þannig fram að íþróttafélög sem starfa í Bolungarvík hafa rétt til að tilnefna einn einstakling til kjörs á íþróttamanni ársins og er skilyrði að íþróttamaðurinn sé í íþróttafélagi innan ÍSÍ og vinni afrek sín undir merkjum þess. 

Tilnefndir_til_ithrottamanns

Nikulás Jónsson, Chatchai Phorthiya og Guðmundur Bjarni Jónsson

Chatchai Phorthiya var tilnefndur til íþróttamanns ársins af Golfklúbbi Bolungarvíkur fyrir golfíþróttina. Eftir að Chatchai hóf að spila gólf náði hann ótrúlegum framförum á skömmum tíma enda æfir hann mikið og oft svo að athygli vekur og sýnir íþróttinni mikinn áhuga en hann hefur stundað golfíþróttina um árabil. Hann er prúður og hefur ávallt sýnt öðrum golfurum góða framkomu og verið duglegur við að leiðbeina öðrum og miðla þannig til þeirra eigin þekkingu íþróttinni. Á síðasta ári vann hann sigur á sjávarútvegsmótaröð sem stærstu sjárútvegsfyrirtækin á Vestfjörðum og allir golfklúbbarnir standa að. Í keppni Jakobs Valgeirs vann hann 1. sæti, í keppni Blakknes 1. sæti, í keppni Íslandssögu var hann í 1. sæti og var einnig í 1. sæti í móti Hraðfrystihúsinns Gunnvarar en í 5. sæti í Klofningsmótinu.

Guðmundur Bjarni Jónsson var tilnefndur til íþróttamanns ársins af hestamannafélaginu Gný fyrir hestamennsku. Guðmundur Bjarni hefur lengi stundað útreiðar en hestamennska er honum í blóð borin enda hefur fjölskylda hans verið ötulir iðkendur hestaíþrótta í gegnum tíðina. Guðmundur Bjarni stundar útreiðar allt árið og stundar því hestaíþróttir á ársgrundvelli. Guðmundur Bjarni bæði temur og þjálfar sín hross sjálfur. Hann er prúður, sanngjarn og jákvæður og tekur virkan þátt í undirbúningi og allri aðkomu móta og öðru því sem tilheyrir hestamennsku og félagsstarfi hestamanna og á því drjúgan þátt í að efla félagsstarfið innan hestaíþróttarinnar á Vestfjörðum. Guðmundur Bjarni keppti á félagsmóti hestamanna sl. sumar með góðum árangri og vann fyrstu verðlaun í tölti á félagsmóti hestamanna á Söndum í Dýrafirði. 

Viðurkenningar fyrir sund

Einar Margeir Ágústsson er í 6. bekk og hefur æft sund síðan í fyrsta bekk. Hann hefur verið að keppa bæði hér fyrir vestan og sunnan á liðnu ári. Einar Margeir hefur tekið góðum framförum og er mjög framarlega í sínum aldursflokki á landsvísu.

Eydís Birta Ingólfsdóttir er í 6. bekk og hefur æft sund síðan í fyrsta bekk. Hún er með mjög góða ástundun og mætir vel á æfingar og hefur tekið miklum framförum á árinu. 

Jónína Arndís Guðjónsdóttir er í 9. bekk og er afar fær sundmaður og hefur átt góðan árangur í sundíþróttinni. Hún tók þátt í aldurflokkameistaramóti Íslands þar sem hún bætti sína bestu tíma og hefur verið að vinna sér inn þáttökurétt í mörgum greinum undanfarin ár. Hún tók þátt í gullmóti KR með góðum árangri og bætti þar tíma sinn og var ekki langt frá verðlaunasæti en hún var þar að keppa við 18 ára stúlkur þrátt fyrir að vera aðeins 14 ára. Þá tók hún þátt í unglingalandsmóti UMFÍ þar sem hún fékk tvö gull, þrjú silfur og og þrenn bronsverðlaun. Þá tók hún þátt í nýársmótinu í Bolungarvík þar sem hún fékk sex gull og eitt silfur. Þess má geta að hún tók einnig þátt í skólahreysti þar sem hún stóð sig mjög vel.

Rebekka Lind Ragnarsdóttir er í 10. bekk og hefur æft sund sl. 10 ár. Hún hefur náð lágmörkum á aldursflokkameistaramóti Íslands og hefur mjög góða ástundun og hefur lagt hart að sér sem hefur leitt af sér miklar framfarir í íþróttinni undanfarin tvö ár.   

Viðurkenning fyrir boccia

Emilía Arnþórsdóttir hefur í mörg ár stundað boccia-íþróttina og hefur m.a. keppt á Ólympíuleikum fatlaðra í þeirri íþrótt. Hún stundar boccia æfingar af miklum áhuga og hefur ástundun og mæting verið til fyrirmyndar. Hún varð deildarmeistari í 2. deild á Íslandsmótinu í einstaklingskeppni í boccia og vann sér inn sæti í 1. deild á næsta ári. Þá var Emilía í sigurliði Ívars á Magnúsarmótinu á Þingeyri í nóvember s.l. en tók einnig þátt í Íslandsmóti í sveitakeppni í boccia og Halldórs Högna mótinu á Þingeyri. Síðast liðið vor veitti Íþróttafélagið Ívar Emilíu viðurkenningu fyrir góða ástundun og framfarir veturinn 2015-2016.  

Viðurkenning fyrir hlaup, sund, hjólreiðar og skíðagöngu

Katrín Pálsdóttir hefur æft íþróttir af miklu kappi undanfarin ár og tekið þátt í ýmsum keppnum á síðasta ári. Hún tók þátt í hjartardagshlaupinu sem eru 10 km og varð fjórða í sínum flokki, 17-39 ára, af 23 hlaupurum. Þá tók hún þátt í landvættum og keppti þar í vesturhluta í Fossavatnsgöngunni í 50 km skíðagöngu og varð í 6. sæti af 13 keppendum í austurhluta í urriðasundi sem eru 2,5 km og náði 1. sæti af 39 keppendum, og í suðurhluta Bláalónshjólakeppninni sem eru 60 km sem hún fór á 2 klukkustundum og 30 mínútum. Þá tók hún þátt í hlaupahátíð á Vestfjörðum, Vesturgötuhlaupinu sem eru 24 km og varð í 4. sæti í sínum flokki af 14 keppendum og Arnarneshlaupinu, 10 km, og varð í 4. sæti af 16 keppendum og bætti eigið met. Þá tók hún þátt í sjósundi, 500 m, á hlaupahátíð Vestfjarða og var í fyrsta sæti af sjö. Einnig tók hún þátt í Vestfjarðamótinu 2016 með lengri vegalengdum og varð þar í 2. sæti. 

Viðurkenning fyrir dans

Ingibjörg Bjarnadóttir og Jón Sveinsson hafa um áratugaskeið viðhaldið íslenskri þjóðdansahefð í Bolungarvík en þjóðdansar eru dansar sem eiga uppruna sinn í menningarsögu landa. Íslensku þjóðdansarnir hafa verið dansaðir af íslenskri alþýðu kynslóð eftir kynslóð. Kunnáttan í þessum fornu alþýðudönsum hefur farið þverrandi síðustu tvær aldirnar en þökk sé einstaklingum eins og Ingibjörgu og Jóni sem hafa í um aldarfjórðung æft og dansað þjóðdansa á þrettándagleði í Bolungarvík og með því bæði varðveitt þjóðmenningu okkar auk þess að kenna og miðla til annarra Bolvíkinga þjóðdansahefð Íslendinga og kunnáttu sinni og þannig lagt sitt af mörkum til að viðhalda þjóðmenningu og efla áhuga þeirra sem yngri eru á íslenskri þjóðdansahefð.

Viðurkenning fyrir handbolta 

Ólafur Tryggvi Guðmundsson hefur bætt sig allra mest af öllum bolvískum iðkendum í handbolta. Hann er lykil-leikmaður í sínum flokki og hefur tekið aukna ábyrgð á árinu og getur leyst margar stöður á vellinum. Hann hefur tekið miklum líkamlegum framförum á sl. ári, styrkt sig verulega og hefur verið að leika keppnisleiki með strákum sem eru 2-4 árum eldri en hann sjálfur. Ólafur Tryggvi sýnir íþrótt sinni mikinn áhuga og hefur sótt handboltanámskeið í Reykjavík þegar tími gefst til. Hann er duglegur og mætir á allar þær æfingar sem hann getur auk þess sem hann aðstoðar við æfingar hjá yngri iðkendum og er duglegur að kenna þeim sem þar æfa. Framkoma hans á æfingum er ávallt til fyrirmyndar. Þá hlustar hann vel á þjálfarann sinn og reynir ávalt að tileinka sér það sem honum er kennt.