Fréttir
  • Íþróttamaður Bolungarvíkur 2018; mynd: Hafþór Gunnarsson

Pétur íþróttamaður Bolungarvíkur 2018

Pétur Bjarnason

Katrín Pálsdóttir, formaður fræðslumála- og æskulýðsráðs, bauð gesti velkomna og kynnti dagskrána.

Fyrst á dagskrá var tónlistaratriði frá Tónlistarskólanum í Bolungarvík, Oliver Rähni lék Nouvelle Étude nr. 2 og Étude op. 25 no. 9 eftir Chopin og Karólína Mist Stefánsdóttir söng Líttu sérhvert sólarlag eftir Braga Valdimar Skúlason. Því næst flutti Þorsteinn Másson erindi um þríþrautaþjálfun.

Þá voru veittar viðurkenningar og farið yfir árangur íþróttafólks á árinu. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, tilnefndi síðan íþróttamann Bolungarvíkur.

Ithrottamadur_Bolungarvikur_2018_2

Guðný Bjarnadóttir fyrir Pétur Bjarnason, Helgi Pálsson, Hreinn Róbert Jónsson og Mateusz Lukasz Klóska

 

Tilnefndir til íþróttamanns Bolungarvíkur 2018 voru:

Helgi Pálsson, kraftlyftingadeild UMFB
Helgi hefur bætt sig mikið á mótum innanlands á liðnu ári. Hann náði 3. sæti á Íslandsmótinu í klassískri bekkpressu í mínus 120 kg flokki. Þá náði hann 2. sæti á Íslandsmótinu í klassískum kraftlyftingum í mínus 120 kg flokki. Einnig náði hann 2. sæti á Bikarmóti í klassískri bekkpressu í mínus 120 kg flokki og 1. sæti á Bikarmóti í klassískum kraftlyftingum í sama flokki. Bæting í samanlögðum árangri á mótum voru 17,5 kg á árinu. Helgi hefur sýnt góða háttsemi á mótum og eljusemi á æfingum. 

Hreinn Róbert Jónsson, Knattspyrnufélagið Hörður fyrir handknattleik
Hreinn hefur æft duglega og verið félögum sínum mikil fyrirmynd. Hann hefur staðið sig vel í keppni með meistaraflokki félagsins. Hann er ávallt reiðubúinn að leggja sig fram í félagsstörfum fyrir félagið, aðstoða með yngri iðkendur og hefur sýnt mikinn vilja í að leggja sig fram til að ná frekari framförum. Félagið er þess fullvíst að Hreins bíður mikil og góð framtíð í íþróttunum. Hreinn er þekktur meðal yngri iðkenda félagsins og líta þeir upp til hans. 

Mateusz Lukasz Klóska, Blakdeild Vestra
Mateusz hefur æft blak í 16 ár eða frá ellefu ára aldri. Hann spilaði í pólsku háskóladeildinni í 5 ár. Mateusz æfir blak tvisvar til þrisvar í viku, og æfir til viðbótar í íþróttamiðstöðinni í Bolungarvík. Mateusz er menntaður íþróttafræðingur frá Póllandi. Hann er heilsteyptur og heiðarlegur og frábær fyrirmynd fyrir yngri leikmenn. Hann er óeigingjarn leikmaður sem er alltaf tilbúinn að hjálpa félögum sínum utan vallar sem innan. Mateusz á stóran þátt í velgengni meistaraflokks karla, sem náði 2. sæti 1. deildar Íslandsmótsins á síðasta leiktímabili og er sem stendur í efsta sæti deildarinnar með aðeins eitt tap í haust. Liðið er einnig komið í 8 liða úrslit bikarsins. Mateusz er feikilega sterkur blakmaður með mikinn stökkkraft. Hann er einnig útsjónasamur leikmaður og það er erfitt að verjast honum. En ekki síst þá er hann gegnheill persónuleiki sem er alltaf tilbúinn að hjálpa félögum sínum með yfirvegun og rósemi. 

Pétur Bjarnason, fyrir meistaraflokk Vestra
Pétur Bjarnason var lykilleikmaður í meistaraflokki Vestra á liðnu ári. Hann lék 22 leiki af 22 leikjum Vestra í 2. deild og skoraði 14 mörk. Pétur var markahæsti leikmaður Vestra á tímabilinu. Hann hefur tekið miklum framförum sem leikmaður undanfarin ár og hann er í dag lykilleikmaður í meistaraflokki. Pétur stundar knattspyrnu af krafti og mætir á allar æfingar og æfir einnig aukalega. Hann hefur mikinn metnað og setur markið hátt. Það er engin spurning að við eigum eftir að heyra mikið af Pétri í framtíðinni þar sem hæfileikar, dugnaður og metnaður eru miklir hjá honum. Framkoma Péturs er til fyrirmyndar hvort sem er gagnvart stjórn, starfsmönnum eða öðrum hjá félaginu. Hann er góður félagi og mikill liðsmaður. Pétur hefur einnig þjálfað unga iðkendur undanfarin ár og sinnt því af mikill fagmennsku. Pétur er frábær fyrirmynd yngri iðkenda. Pétur var útnefndur íþróttamaður Bolungarvíkur árið 2015.

Tilnefndir til viðurkenninga:

  • Jórunn Inga Sigurgeirsdóttir, fyrir sund
  • Margrét Gunnarsdóttir, fyrir sund
  • Agnes Eva Hjartardóttir, fyrir sund

Þessar stúlkur fá viðurkenningu fyrir góða ástundun, jákvætt hugarfar, framfarir og miklar framfarir í sundi.

Ríkarð Bjarni Snorrason, fyrir kraftlyfingar
Ríkarður er Íslandsmeistari í mínus 120 kg flokki í klassískri bekkpressu með 190 kg lyftu. Hann er bikarmeistari í mínus 120 kg flokki í klassískri bekkpressu með 200 kg lyftu. Hann á einnig þriðju stigahæstu lyftuna í klassísku bekkpressunni á árinu í öllum flokkum.

Ólafur Tryggvi Guðmundsson, fyrir handbolta
Ólafur hefur á undanförnum árum sýnt mikla iðjusemi við æfingar og hefur tekið miklum framförum. Hefur hann keppt með 3. og 4. fl. Harðar undanfarin ár með góðum árangri. Hans bíður björt framtíð innan handknattleiksvallarins. Hann er bæði góður íþróttamaður og félagsmaður í knattspyrnufélaginu Herði en fáir félagsmenn eru jafn viljugir að leggja sig fram um að aðstoða eins og Ólafur. 

  • Páll Guðmundsson, fyrir golf
  • Valdís Hrólfsdóttir, fyrir golf

Viðurkenningin er fyrir góða ástundun og árangur í golfíþróttinni, ásamt mjög óeigingjörnu vinnuframlagi til Golfklúbbs Bolungarvíkur til fjölda ára. 

Vala Karítas Guðbjartsdóttir, fyrir körfubolta
Vala Karítas æfir körfuknattleik með Vestra. Hún spilar bæði með 10. flokki og stúlknaflokki. Hún er dugmikill og óeigingjarn leikmaður og einstaklega góður liðsmaður. Flokkur hennar hefur verið meðal bestu liða í sínum árangi undanfarin ár og er meðal efstu liða í sinni deild. Vala Karítas spilaði stórt hlutverk með liði sínu snemmsumars þegar Vestri vann sinn fyrsta bikar í kvennaflokki. Liðið hampaði sigri í hinu árlega Gautaborgarmóti sem fram fer í Svíþjóð. Mótið er hið fjölmennasta á Norðurlöndum og koma lið víðs vegar að. Auk þess að æfa og spila körfuknattleik, þá hefur Vala verið óeigingjörn í sjálfboðastarfi fyrir kkd. Vestra og er fyrirmyndar fulltrúi félagsins.

Fimleikalið UMFB
Við viljum veita þeim stelpum viðurkenningu sem fóru og kepptu á íslandsmótinu í fimleikum í vor. Jóna María Benediktsdóttir, Ingibjörg Anna Skúladóttir, Agnes Eva Hjartardóttir, Bríet María Ásgrímsdóttir, Guðrún Margrét og Eydís Birta Ingólfsdóttir.

4. flokkur Vestra, karla, í fótbolta
4.fl.kk stóð sig einstaklega vel á síðasta tímabili. Drengirnir byrjuðu árið á því að sigra í B-styrkleika á Goðamóti Þórs sem haldið var á Akureyri. Þeir urðu einnig sigurvegarar í B-styrkleika á Rey-cup sem er stórt alþjóðlegt mót sem fram fer í Reykjavík. Á Íslandsmótinu urðu þeir efstir í sínum riðli og fóru því úrslitakeppni 4.fl.kk en þar vinna aðeins 8 lið sér þátttökurétt. Þar stóðu þeir sig með sóma og náðu að standa í öllum liðunum í úrslitakeppninni. 

  • Arnar Bragi Steinþórsson 
  • Arnar Rafnsson 
  • Gautur Óli Gíslason 
  • Guðmundur Páll Einarsson
  • Hinrik Guðmundsson
  • Hörður Christian Newman 
  • Jóhann Samuel Rendall 
  • Kári Eydal 
  • Krystian Jónbjörn Jónsson
  • Magnús Baldvin Birgisson
  • Magnús Örn Guðnason
  • Pétur Guðni Einarsson 
  • Stefán Freyr Jónsson
  • Sudario Eidur Carneiro 
  • Sævar Eðvald Jónsson

Sérstakar viðurkenningar fá:

Laddawan Dagbjartsson
Laddawan var veitt viðurkenning fyrir óeigingjarnt og gott starf í þágu íþrótta og heilsueflingar í Bolungarvík. Laddawan hefur hátt í tvo áratugi verið brautryðjandi í heilsueflingu og hreyfingu í bænum. Hún starfar sem íþróttakennari, hefur kennt dans fyrir UMFB, þolfimi, o.fl. en nú sl. 2 ár stofnað fimleikadeild innan UMFB og þjálfað, deild sem hefur vaxið og telur nú hátt í 90 iðkendur. Þar hefur hún með mikillri elju og fórnfýsi, boðið upp á nýja íþróttagrein hér á svæðinu við mikla ánægju iðkenda og foreldra. Nú síðast liðið vor fór hún með hóp iðkenda UMFB sem kepptu í fyrsta sinn í fimleikum á móti. Hefur hún í starfi sínu sýnt ótrúlegar úrlausnir við uppsetningar á æfingum vegna skorts á aðbúnaði og haft frumkvæði að og staðið að því sjálf að bæta aðbúnað fyrir deildina.

Jónas I. Sigursteinsson
Jónasi I. Sigursteinssyni var einnig veitt sérstök viðurkenning fyrir gott og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta og fótboltaþjáflunar í Bolungarvík. Frá því Jónas flutti vestur hefur hann komið að fótboltastarfi á einn eða annan hátt. Hann á stóran þátt í uppbyggingu á UMFB, kom kvennafótboltanum á laggirnar, séð um fótboltavöllinn okkar, haldið utan um Hrafnaklett og lagt sitt á mörkum til að efla frekara íþróttastarf í bænum. Jónasi er þakkað sérstaklega fyrir allt það starf sem hann hefur lagt til fótboltaiðkunnar hér á svæðinu.