Fréttir
  • Jólamyndir grunnskólans

Jólamyndir samfélags

Árið 1980 kom kennari til skólans sem bauð nemendum á yngra stigi að gera klippimyndir sem jólaskreytingu til að hafa í glugga þannig að glugginn virtist steindur. Eldri nemendur vildu einnig gera slíkt jólaföndur og fengu það.

Jólin 1980 komu margir grunnskólanemendur í Bolungarvík heim til sín með klippimyndir sem foreldrarnir festu stoltir út í glugga. Jafnvel enn í dag eru þessar fyrstu myndir settar upp á jólum á sumum heimilum.

JesusÁrið eftir, jólin 1981, var byrjað á að gera samskonar myndir til uppsetningar í gluggum skólans og fyrsta myndin sem fór upp var stór Jesú-mynd í glugga stigagangs eldri byggingarinnar. Hún er enn í dag sett upp en mikið búið að endurbæta hana.

Lengi vel voru bara myndir í gamla skólanum en svo bættist nýi hlutinn við og myndunum fjölgaði með árunum þar til nánast allir gluggar skólans voru steindir yfir jólin. 

Eitt árið voru myndirnar taldar og reyndust þá vera 491. Töluverð vinna fer í að setja upp myndirnar og taka niður eftir jól og hafa foreldrar verið kallaðir til í verkefnið enda eru sumar myndanna eftir þá sjálfa.

Um jólahátíðina fara margir foreldrar að skólanum til að dást að listaverkum barna sinna og sýna þeim í leiðinni myndirnar sem þeir gerðu sem nemendur í skólanum.

Þannig hefur þetta einfalda verkefni að gera klippimynd vafið upp á sig og er orðið að samfélagslegu verkefni ár hvert og skólaárið í ár er fertugasta skólaárið sem myndir eru settar upp.

Þannig bera myndirnar vitni um að samfélag er fyrst og fremst fólkið sem myndar það en um leið mótast samfélagið af aðstæðum, tækifærum og hugmyndaauðgi einstaklinganna.

Bolungarvíkurkaupstaður óskar íbúum, nágrönnum og öllum Bolvíkingum nær og fjær gleðilegra jóla!