• Kerfill

1. júlí 2020

Kerfilinn burt úr Bolungarvík

Umhverfisátak Bolungarvíkurkaupstaðar

Bolungarvíkurkaupstaður hvetur íbúa og fyrirtæki til að hreinsa kerfilinn úr nánasta umhverfi og halda áfram átakinu sem miðar að því að koma kerflinum burt úr Bolungarvík!

Næstu tvær vikurnar er lykiltími til að slá kerfil. Hann er að ná fullum vexti en ekki farin að fella fræ. Því er afar mikilvægt að allir sem hafa áhuga, vilja og getu til að slá eða rífa upp kerfilinn að fara í smá líkamsrækt og eyða þessum vágesti.

Sveitarfélagið mun halda úti sérstöku sláttugengi næstu vikurnar til að slá eins mikið af opnum svæðum eins og mögulegt er, en það er svotil útilokað að gera þetta án þess að fá hjálp ykkar, bæjarbúa.

Þess vegna mun áhaldahúsið og vinnuskólinn einbeita sér að þessu átaki á næstunni. Í boði verður að fá lánuð orf, fyrir þá sem vilja slá seinnipartinn eða á kvöldin og um helgar. Hægt verður að skilja eftir kerfil á götuhornum eða þar sem hægt er að nálgast hann og bæjarstarfsmenn koma og sækja og koma í eyðingu. Einnig verður hægt að fá salt (ásamt að hægt er að sækja salt á hafnarvog) til að dreifa yfir opin svæði þar sem kerfillinn hefur vaðið yfir.

Skilaboð og upplýsingar um átakið og hvar verður hægt að nálgast orf verður sett á fésbókarsíðuna „Kerfillinn burt úr Bolungarvík“ þar sem starfsmenn bæjarins setja reglulega inn upplýsingar ásamt þeim eldhugum sem hafa vaðið eld og brennistein til að hreinsa bæinn af þessu óféti!