Kvennaverkfall 24. október 2025
Föstudaginn 24. október 2025, eru konur og kvár hvött til að leggja niður launuð sem ólaunuð störf allan daginn eins og konur gerðu fyrst á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Það var sögulegur viðburður á alheimsvísu enda lögðu 90% kvenna á Íslandi niður vinnu þann dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið.
Í sveitarfélaginu er stór hluti starfsfólks konur og kvár og án vinnuframlags þeirra skerðist eða í einhverjum tilfellum, stöðvast stór hluti starfsemi sveitarfélagsins. Fyrirsjáanlegt er að þátttaka í verkfallinu verður mikil. Undantekning er þó starfsemi sem viðkemur heilsu og öryggi þjónustuþega Bolungarvíkurkaupstaðar.
Reikna má með röskun í starfsemi stofnana, í leik- og grunnskóla og frístundastarfi. Foreldrar eru því hvattir til að fylgjast með tilkynningum frá skólum og/eða frístundaheimilum barna sinna hvað þetta varðar. Fjarvistir kvenna og kvára vegna þátttöku í kvennaverkfallinu verða ekki taldar óréttmætar né verður dregið af launum vegna þeirra.
Bendum á kröfugangu á Ísafirði sem hefst á Silfurtorgi kl 14 og endar með dagskrá í Edinborgarhúsinu.
Þau sem ekki geta tekið þátt þar sem þau sinna ómissandi störfum eru hvött til að deila myndum af sér og samstarfsfólki á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #kvennaverkfall og #ómissandi.

