Bæjarráð Bolungarvíkur lýsir yfir áhyggjum af áhrifum frumvarps um veiðigjöld
Bæjarráð Bolungarvíkur tók fyrir yfirlýsingu stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem lögð var fram til kynningar á fundi bæjarráðs í vikunni. Í kjölfarið sendi bæjarráð frá sér bókun þar sem það lýsir yfir miklum áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum á lögum um veiðigjöld.
Í bókun bæjarráðs segir að þótt ekki séu gerðar athugasemdir við sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í þjóðareign, þar á meðal sjávarauðlindum, þá veki frumvarpið alvarlegar áhyggjur varðandi áhrif þess á minni útgerðir og fiskvinnslufyrirtæki.
„Aukin gjaldtaka mun án nokkurs vafa hafa umfangsmikil áhrif á greinina og að öllum líkindum auka samþjöppun í greininni með tilheyrandi fækkun starfa,“ segir í bókuninni. Þar kemur einnig fram að líklegt sé að slíkar breytingar dragi úr samfélagslegri þátttöku sjávarútvegsfyrirtækja, sem gæti haft afar neikvæð áhrif til lengri tíma.
Bæjarráð gagnrýnir jafnframt skort á greiningu á áhrifum frumvarpsins á sveitarfélög og bendir á að útgerð og fiskvinnsla sé burðarás í atvinnulífi Bolungarvíkur.
„Stór og afgerandi hluti tekna Bolungarvíkurkaupstaðar kemur frá útgerð og vinnslu í sveitarfélaginu. Frumvarpið getur haft veruleg neikvæð áhrif á rekstur sveitarfélagsins og burði þess til að viðhalda sterku og lifandi samfélagi.“
Í bókuninni er einnig bent á að sjávarútvegur í Bolungarvík hafi greitt milljarða í veiðigjöld á undanförnum árum. Þá er rifjað upp að hluti eldisgjalds af fiskeldi renni til fiskeldissveitarfélaga og skorað á ríkisstjórnina að beita sömu pólitísku stefnumótun þegar kemur að veiðigjaldi af sjávarútvegi.
Að lokum skorar bæjarráð á sjávarútvegsráðherra að endurskoða málið:
„Frumvarp um breytingar á lögum um veiðigjald er enn ein aðförin að byggðastefnu Íslands. Bæjarráð skorar á ráðherra að hægja á ferlinu og auka samráð við sveitarfélög og hagsmunaaðila með betri greiningarvinnu.“