• Markaðshelgin 2016

1. júlí 2016

Markaðshelgin framundan

Nú fer að líða að markaðshelginni og ýmislegt verður í boði gestum til gagns og gamans.

Fjölmargir söluaðilar ætla að selja ýmislegan varning á markaðsdeginum á laugardaginn í Bolungarvík.

Í boði verður tælenskur matur, grillspjót, alvöru kleinur og annað bakkelsi, leikföng, dúkkur, prjón og hekl, nýtt og notað í fötum og dóti, ýmiskonar handverk, Hornstrandahandklæði, eldhúshandklæði, höfuðhandklæði, þvottapokar og smekkir, skartgipir í afrískum stíl, flóamarkaður og handgerðir brjóstsykursmolar svo eitthvað sé nefnt.

Enn eru laus pláss á markaðnum og hægt að skrá sig hér.

Dagskráin byrjar á fimmtudeginum með útgáfutónleikum gítarsnillingsins Björns Thoroddsens og vestfirsku söngkonunnar Önnu Þuríðar Önnu Sigurðardóttur en þau eru í samstarfi við Robben Ford nokkurn sem er einn af stóru strákunum í Ameríku, hefur unnið í tónlist með stórstjörnum eins og George Harrison, Joni Mitchell og Miles Davis.

Í maí síðastliðnum voru Björn og Anna Þuríður við upptökur á plötu í Nashville í Ameríku undir stjórn Ford og einn þeirra sem kom við sögu á plötunni er ástralinn Tommy Emmanuel sem er einn allra besti gítarleikari sögunnar. Gestir fá að heyra efni sem verður á plötunni.

Tónleikarnir eru í Félagsheimili Bolungarvíkur og hefjast kl. 21. Forsala miða er í Einarshúsi í Bolungarvík.

Á föstudaginn kl. 14:00 býður Samkaup Úrval í pylsugrillpartí við verslunina í Bolungarvík í samstarfi við styrktaraðila.

Golfklúbbur Bolungarvíkur stendur fyrir Taxas-Scramble móti kl. 17 á föstudaginn, glæsileg verðlaun eru í boði og skráning er á golf.is.

Um kvöldið verður svo brekkusöngur og bál í gryfjunni við Hreggnasa en Hjörtur Traustason, hinn eini og sanni, ætlar að halda sönghita á mannskapnum.

Á laugardeginum verður svo fjölbreytt dagskrá í boði, tónleikar þar sem sigurvegarar liðinna söngkeppna markaðshelgarinnar koma fram, Sirkus Íslands kemur í heimsókn með sýningu og loftfimleika, hestamannafélagið Gnýr býður öllum á bak, það verða hoppukastalar og andlitsmálning, Kómedíuleikhúsið sýnir Fjalla-Eyvind og gestir geta séð stuttmyndina Vettlingaveður sem er útskriftarverkefni Berglindar Höllu Elíasardóttur frá Kvikmyndaskóla Íslands.

Hægt verður að virða fyrir sér gamla bíla og tæki og dagurinn endar með fjölskylduballi kl. 17 og svo um kvöldið verður markaðsdansleikurinn með hljómsveitinni Albatross.