Fréttir
  • Minningarskjöldur í Hólskirkjugarði

Minningarskjöldur í Hólskirkjugarði

Á minningarskjöldinn eru rituð þekkt nöfn allra þeirra sem hvíla í garðinum og eru grafir þeirra merktar ásamt gröfum óþekktra. 

Það eru afkomendur hjónanna Júlíusar Hjaltasonar og Guðrúnar Sigríðar Guðmundsdóttur frá Hrauni í Skálavík sem hafa sett upp minningarskjöldinn og gefið Hólssókn. 

Minningarskjöldurinn er bæði til vitnis um þá sem vitað er um með fullri vissu hvar hvíli í garðinum en einnig og ekki síður virðingarvottur við horfnar kynslóðir Bolvíkinga.

Form minningarskjaldarins minnir í senn á skipsstafn og rísandi öldufald, en skjöldurinn með nöfnum genginna Bolvíkinga á að endurspegla styrk og þol þeirra kynslóða sem í garðinum hvíla en háðu harða baráttu við óblíða náttúru án þess að brotna eða bogna.

Einar Jónatansson formaður sóknarnefndar tók formlega á móti gjöfinni og kom þökkum frá sókninni á framfæri. Sr. Ásta Ingibjörg Pétursdóttir sóknarprestur blessaði minnisvarðann, afkomendur og aðra gesti sem voru viðstaddir þessa einföldu en fallegu athöfn.

Að athöfn lokinni var gestum boðið að þiggja veitingar að Vitastíg 18, heimili Steinunnar Guðmundsdóttur og Pálma Karvelssonar í Bolngarvík.

Hólskirkja stendur í Hólskirkjugarði en nýr garður sóknarinnar er Grundarhólskirkjugarður austan og neðan við Hólinn.