Mun betri staða í vatnsveitu Bolungarvíkur
Eftir að veðuraðstæður bötnuðu í gærkveldi og það hætti að rigna, breyttust aðstæður hratt í vatnsveitunni. Það minnkaði vatnið í lóninu og ástandið var viðráðanlegt.
Starfsfólk vatnsveitunnar var við vinnu fram á nótt og byrjaði snemma í morgun með góðum árangri. Allur síubúnaður virkar vel og er allt vatn geislað í samræmi við allar verklagsreglur.
Það er því allt sem bendir til þess að vatnið sé aftur orðið eðlilegt og hæft til matvælavinnslu og drykkjar.
En það er stutt í næsta hvell sem kemur á morgun og erum við strax farin að undirbúa okkur og gera allt sem í okkar valdi stendur að tryggja vatnsgæðin í gegnum þann skafl.
Við munum svo vinna náið með Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða næstu daga í eftirliti og sýnatökum.
Takk íbúar fyrir að sýna þessu skilning og langlundargeð. Takk starfsfólk og stjórnendur matvælafyrirtækjanna í Bolungarvík fyrir ykkar þolinmæði. Og takk, takk, takk strákar í vatnsveitu Bolungarvíkur, sem hafa lítið sofið síðustu daga og lagt allt sitt í að tryggja öryggi okkar hinna.