Fréttir

Ný vatnsveita tekin í notkun í Bolungarvík

Ný vatnsveita hefur verið tekin í notkun í Bolungarvík og tryggir hreint og öruggt neysluvatn fyrir bæjarbúa og fyrirtæki. Um er að ræða eina umfangsmestu innviðaframkvæmd bæjarfélagsins á undanförnum árum.

Vatnsveitan er staðsett í Hlíðardal og samanstendur af hreinsistöð og tveimur forðatönkum sem rúma samtals 2.700 rúmmetra af vatni. Það dugar sem sólarhringsforði fyrir bæinn. Hreinsikerfið hefur mikla afkastagetu og tryggir stöðug gæði vatnsins, óháð veðurfari.

Í sumar verður borhola í Djúpadal tengd við kerfið, sem gerir bænum kleift að hætta alfarið að nota yfirborðsvatn.

Framleiðsla matvæla í Bolungarvík hefur aukið vatnsþörfina til muna en stóru matvælafyrirtækin okkar þrjú, laxasláturhúsið Drimla, Jakob Valgeir og Arna eru stærstu vatnsnotendur í sveitarfélaginu.

Verkefnið hófst árið 2022 og hefur hlotið fjárstuðning úr Fiskeldissjóði síðustu þrjú ár. Heildarkostnaður framkvæmdarinnar er yfir 300 milljónir króna.

Framkvæmdin er ekki aðeins mikilvæg fyrir bæjarbúa og atvinnulíf, heldur stuðlar hún einnig að heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um aðgengi að hreinu vatni.


Fréttir

    Enginn Skjalaflokkur er tengdur.

Fréttir

    Enginn Skjalaflokkur er tengdur.