Nýr vefur fyrir Bolungarvík
Vefurinn lagar sig að ólíkum skjástærðum eins og skjám síma og smátölva ásamt því að virka vel á hefðbundnum tölvuskjá.
Viðmót vefsins býður upp á ýmis frekari þægindi eins og að hringja beint úr síma, t.d. í aðila þjónustumiðstöðvar.
Viðmót vefsins tekur einnig mið af þörfum ólíkra hópa fatlaðra, svo sem blindra og sjónskertra, og þeirra sem eiga á einhvern hátt erfitt með lestur og fínhreyfingar. Þannig á ekki að skipta máli hvort notandi beitir mús, lyklaborði, rödd, skjálesara, fingri eða öðru þegar vafrað er um vefinn. Raunin er reyndar sú að flest af því sem aðveldar aðgengi fatlaðra á vef nýtist á endanum öllum notendum.
Vefurinn er hannaður af Hugsmiðjunni ehf. í samstarfi við Helga Hjálmtýsson, markaðs- og kynningarfulltrúa, en vinna við innsetningu efnis hefur staðið yfir frá því í ágúst síðastliðnum. Fyrr á árinu tók bærinn nýja vefsíðu fyrir grunnskólann í gagnið í samstarfi við sama fyrirtæki (gs.bolungarvik.is).
Mynd á forsíðu er eftir Bjarka Friðbergsson og hann á einnig margar myndanna á undirsíðum vefsins. Einnig prýða vefinn myndir sem Helgi Hjálmtýsson hefur tekið.
Hugsmiðjan hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir vefi sína og er í fremstu röð fyrirtækja í vefþjónustu.