Orkusalan gefur hleðslustöðvar
Með þessu vill fyrirtækið auðvelda rafbílaeigendum að komast leiðar sinnar hringinn í kringum landið.
Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri, tók í dag við hleðslustöð fyrir Bolungarvíkurkaupstað úr hendi Friðriks Valdimars Árnasonar, orkuráðgjafa hjá Orkusölunni.
Við þökkum Orkusölunni kærlega fyrir þessa góðu gjöf og munum koma henni fyrir hjá okkur í sveitarfélaginu svo að hún gagnist sem flestum rafbílaeigendum, sagði Jón Páll við móttöku stöðvarinnar.
Ísland er í lykilstöðu til að leiða rafbílavæðingu heimsins og vill Orkusalan leggja sitt af mörkum með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.
Samkvæmt upplýsingum frá Orkusölunni felst lítill tilkostnaður í því fyrir sveitarfélögin að koma stöðvunum upp. Hann kann helst að felast í útseldri vinnu við uppsetninguna og vegna lagnavinnu.
Stöðvarnar eru 22 kílówött og þriggja fasa 32 ampera.
Orkusalan er dótturfyrirtæki RARIK.