Fréttir
  • Vatn

Ráðlegt að sjóða neysluvatn

Niðurstaða vatnsmælinga Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða í Bolungarvík sem tekin voru fyrir helgi reyndist vera á þann veg að neysluvatn stenst ekki kröfur skv. neysluvatnsreglugerð nr 536/2001.

Starfsfólk vatnsveitu Bolungarvíkur hefur þegar gripið til aðgerða, yfirfarið allan búnað, skipt út perum í geislatæki og kannað hvort einhver möguleiki sé á að utanaðkomandi smit hafi átt sér stað í vatnslögnum bæjarins.

Ný vatnssýni verða tekin í dag og má vænta niðurstöðu úr þeim á miðvikudag. Þangað til er fólki ráðlagt, sem varúðarráðstöfun, að sjóða drykkjarvatn.

Bolungarvíkurkaupstaður hefur þegar hafið framkvæmdir við nýja vatnsveitu, með nýrri hreinsistöð og vatnstönkum sem geta tekið við borholuvatni sem kæmi í stað yfirborðsvatns sem notað er í dag. Stefnt er að taka í notkun fyrsta hluta á nýrri vatnsveitu um mitt næsta ár.