Fréttir
  • Einar Kristinn Guðfinnsson flytur ræðu í Hólskirkju á sjómannadag 2018

Ræða Einars Kristins í Hólskirkju á sjómannadag

Kæru sjómenn og aðrir kirkjugestir, gleðilegan sjómannadag!

Í morgun sigldum við yfir Djúpið á varðskipinu Tý á þann stað sem Heiðrún II fórst í ferúar fyrir 50 árum. Þetta var áhrifarík og góð stund sem við áttum, aðstandendur, bolvískir sjómenn og fleiri undir fallegri athöfn sr. Ástu, þar sem blómsveigum var varpað í hafið til minningar um þá er fórust.

Hinir myrku febrúardagar fyrir hálfri öld líða okkur aldrei úr minni. Ég var tólf ára,  á þrettánda aldursári og þessi tími er mér enn ljóslifandi. Sorg, deyfð og drungi grúfði yfir og ég man að við börnin áttum erfitt með að taka upp leiki okkar að nýju; okkur fannst það hvorki tilhlýðilegt né stóð löngun okkar til þess mitt í sorginni. Það féllu mörg tár og fólkið tókst á við erfiðleikana með sínum hætti, eins og þá tíðkaðist.

Í dag var gott að koma saman, njóta hlýs faðmlags og líta augum ungt fólk og börn sem eiga framtíðina fyrir sér; afkomendur og skyldmenni áhafnarinnar á Heiðrúnu II. Blessuð sé minning þeirra sex sem fórust. 

Hafi þeir allir sem frumkvæði hafa haft að þessari minningarstund og stundinni í vetur, sem og varðskipsmenn á Tý og Landhelgisgæsla Íslands, heila þökk fyrir. 

Lífsreynsla og þroski kennir manni margt. Sumt af því sem maður ímyndaði sér lítill hnokki að lífið hlyti að snúast um verður skyndilega svo óskaplega fáfengilegt. Annað sem var víðsfjarri huga bernskunnar verður á hinn bóginn smám saman mikilvægara í huga manns. Þannig er allt breytingunum undirorpið; líka í heilabúi manns. Það sem viðtekið var verður skyndilega úrelt, efinn leitar á mann um margt sem ekki stenst áraun reynslunnar. Og þegar maður fullorðnast virðist reynsluheimurinn flytja mann inn á nýjar lendur. Hið hversdagslega sem eitt sinn var, verður bara hluti af sögunni, en hið óræða og fjarlæga er í staðinn hluti af daglegu lífi okkar.

Svona er nú lífið einu sinni, eins og mér fannst gamla fólkið segja þegar ég var að alast upp; fólkið sem var á þeim tíma á svipuðum aldri og ég er núna. 

Ég skal vel viðurkenna að ég horfi til minnar bernsku í Bolungarvík með miklum ljóma í augum. Ég tel mér að minnsta kosti trú um að allt sé það þó með miklum raunveruleikablæ. Ég var um daginn að blaða í gegn um gamlar ljósmyndir héðan ásamt fjölskyldu minni. Og krakkarnir mínir vöktu athygli mína á breytingunum. Á myndunum blöstu við holóttar malargötur, húsin voru lágreistari, bílarnir fornfálegri og allt var þetta sem af annarri öld. Sem það náttúrulega var. Ætti ungt fólk kost á því að ferðast til baka um svona hálfa öld í tímavél kæmi flest á óvart. Og jafnvel við sem lifðum þessa tíma horfum til baka með öðrum augum, en við sáum samtíma okkar. Þó fannst mér allt mest og best í Bolungarvík og að ekkert gæti staðist Víkinni minni snúning.

Í Bolungarvík bjuggu á þessum tíma all nokkrar fjölskyldur sem höfðu orðið að yfirgefa heimabyggðir sínar norðan Djúps, sumar alla leið frá Ströndum norður.  Ég vissi það ekki þá, en skynjaði betur síðar, hvernig sú ákvörðun að yfirgefa kæra heimahagana hafði meitlað sér leið inn í hugarheim þessa góða fólks og fylgdi því til æviloka. 

Það var eðlilegur og sjálfsagður hlutur fannst manni, að þegar voraði fóru fjölskyldurnar að undirbúa sig til ferðar norður á hinar gömlu heimaslóðir. Geirólfur og Sædísin voru gerð klár, bátarnir málaðir, dregnir fram og sjósettir. Þeir voru hlaðnir vistum sem greinilega voru ætlaðar til langrar dvalar. Ragnar og Guðfinnur Jakobssynir ásamt fjölskyldum lögðu í hann norður í Reykjafjörð, þeir bræður og frændur  og fjölskyldur þeirra á Hreggnasa, tóku  stefnuna norður til Bolungarvíkur á Ströndum, aðrir fóru kannski norður í Aðalvík, Grunnavík eða Jökulfjörður og þannig var það um fleiri. Um það bil sem skólinn hófst að nýju að hausti, birtust bátarnir við Ritinn eða Bjarnarnúpinn og renndu svo einum tveimur tímum síðar fyrir brjótshornið. Við hin – ekki síst krakkarnir - stóðum á Brjótnum, fylgdumst með öllu sem fram fór, sáum rekaviðardrumbana sem þeir höfðu slefað með sér að norðan og þeir söguðu niður til margvíslegra nota yfir veturinn. 

Það var ekki fyrr en löngu síðar, þegar ég var fyrir löngu orðinn fulltíða maður að ég gerði mér almennilega grein fyrir því hvað þarna hafði verið að gerast. Við Ragnar Jakobsson í Reykjafirði áttum margar skemmtilegar samveru og samræðustundir. Á laugardagsmorgnum, eftir að ég var orðinn fulltíða, lagði ég gjarnan  leið mína til hans og Guðmundar bróður hans inn í Sandbúðirnar sem við kölluðum svo,  þar sem þeir voru við iðju sína; gerðu upp gamla báta eða smíðuðu nytjahluti. Oftast sveigðust samtölin okkar að lífinu fyrir norðan. Og það var á einni slíkri stundu sem mér varð þetta allt betur ljóst en áður.  Ragnar var ekki maður sem kaus að hella yfir mann tilfinningum sínum, þó þær bærðust auðvitað með honum eins og okkur öllum. Ein hversdagsleg setning sem hann skaut fram, svo sem ekkert væri eðlilegra, gerði mér það hins vegar skiljanlegt á einni örskotsstundu hvernig hann horfði á málin. Þetta var þegar hann sagði við mig í einhverju samhengi, sem er mér gleymt núna: „Eftir að ég fór að hafa vetursetu hér í Bolungarvík“, sagði hann. Vetursetu í Bolungarvík. Og þá laukst þetta allt upp fyrir mér. Ragnar hafði í rauninni aldrei flust úr Reykjafirði og til Bolungarvíkur. Hann, sem ég hafði auðvitað litið á sem hvern annan Bolvíking og ég vissi að unni byggðinni hér, var þar einhverju leyti gestkomandi í eigin huga. Hann hafði hér bara vetursetu. Hugurinn var fyrir norðan. Það má kannski segja að hann hafi flutt frá Reykjarfirði til Bolungarvíkur í eiginlegum skilningi, en ekki í hinum óeiginlega.

Mér finnst auðvelt að setja mig í þessi spor og sjálfum hefur mér þótt, sem hafi ég bara haft vetursetu í Reykjavík um ríflega aldarfjórðungsskeið  á meðan á þingmennsku minni stóð. Hugurinn var áfram hér og mínar bolvísku rætur hafa aldrei slitnað, sem betur fer. Rétt eins og hjá Ragnari í Reykjafirði forðum i Bolungarvík. 

Það hafa átt sér stað miklar breytingar í sjávarútvegi okkar. Tæknibreytingar og breytt skipulag við veiðar og vinnslu hafa leitt til þess að færra fólk þarf til að afkasta því magni sem við veiðum. Þessi þróun mun halda áfram og er ekki óæskileg. Ef sjávarútvegurinn þróast ekki verður hann ekki samkeppnisfær og laðar ekki að starfsfólk. Það hefur hins vegar gerst í öðrum löndum, þar sem menn hafa lagt áherslu á að stöðva þróunina, jafn fráleitt og það er nú er. Með tæknivæddum sjávarútvegi, góðum skipum og góðum aðbúnaði starfsfólks skapast ný tækifæri og aukið öryggi til sjós, eins og við höfum séð. Sjávarútvegurinn er nefnilega ekki bara veiðar og vinnsla, sem þó eru grundvöllurinn. Sjávarútvegurinn er – og verður í vaxandi mæli – hátækniatvinnugrein, sem nýtir hvert gramm sem að landi kemur. Sú tíð er nefnilega liðin að við flökum bara fisk og setjum restina í gúanó, sem voru þau tækifæri sem höfðum ein hér fyrr meir. Nú er allt nýtt og jafnvel það sem áður var talið verðminnst, skapar mestu verðmætin í formi prótíns af margs konar toga. Lýsisframleiðsla Dropa hér í Bolungarvík er gott dæmi um þetta og einnig framleiðsla fyrirtækisins Kerecis á Ísafirði sem breytir fiskroði í sáraumbúnað. 

En tækifærin eru ekki bara í því sem við veiðum. Fiskeldi er fyrir löngu orðin atvinnugrein sem um munar í heiminum. Meira en helmingur fiskframleiðslunnar í heiminum er núna í formi fiskeldis af margs konar toga. 2, 5 milljónir tonna af laxi eru framleiddar í fiskeldi, tífalt það magn sem við Íslendingar veiðum árlega af þorski. Við Íslendingar höfum setið hjá í þessari miklu uppbyggingu, en ekki lengur. Loksins erum við farin að sjá fiskeldið byggjast upp sem alvöru atvinnugrein, sem farin er að láta um sig muna í landinu. Ef við skoðum útflutningsverðmæti einstakra fisktegunda þá munar sem fyrr lang mest um þorskinn. Útflutningsverðmæti hans var um 83 milljarðar króna í fyrra. Þá loðnan 18 milljarðar og fiskeldið um 14 milljarðar. Ljóst er að á þessu ári getur fiskeldið orðið álíka verðmætt og loðnan og mun meira á næsta ári.

Við hér í Bolungarvík, eins og á Vestfjörðum í heild bindum réttmætar vonir við þetta nýja bjargræði. Með ábyrgð að leiðarljósi og fullri virðingu fyrir viltri náttúrunni eigum við að geta framleitt í formi laxeldis í Ísafjarðardjúpi 25 milljarða útflutningsverðmæti, sem er kannski þrefalt það verðmæti sem við höfum af þorskveiði og vinnslu hér á Vestfjörðum í dag. 

Það er því sárt til þess að vita að þegar fólk reynir með atorku og af góðum hug að bjarga sér, koma til stundum skjalanna pólitískar eða stjórnsýslulegar ákvarðanir, drifnar áfram af skilningsleysi þeirra sem umræðunni stjórna og sitja í hægu sæti í öryggi höfuðborgarsvæðisins, en vilja og deila og drottna yfir örlögum fólksins sem úti á landsbyggðinni býr og vilja þar búa. Þetta finnst okkur hér að við upplifum einmitt þessi misserin þegar við reynum að ná vopnum okkar á grundvelli strangra laga og reglna, við uppbyggingu nýrrar atvinnugreinar, fiskeldis. Við sjáum þetta líka þegar við viljum byggja upp nútímalegar samgöngur og því er mætt af skilningsleysi á þörfum íbúanna. Má ég nefna Teigskóginn sem dæmi? Og sama máli gegnir þegar við eygjum möguleikana á að nýta vatnsaflið í sátt við náttúruna, okkur til framdráttar líkt og gert hefur verið um allt land. Í öllu þessu birtist okkur hið sama; sjónarhóllinn sem við stöndum á fyrir vestan virðist stundum svo allt, allt annar, en sá sem sumir í fjölmenninu syðra nota til þess að skyggnast um gáttir. Fyrir vikið verður sýn manna svo gjörólík á það hvernig við nýtum umhverfið okkar til hagsbóta. 

Getur það verið að það þessi veruleiki, þessi gjörólíka sýn á umhverfið, hafi skapað ósýnilegan múr sem torveldar okkur að komast að skynsamlegri, sameiginlegri niðurstöðu um framtíðina í hinum dreifðu byggðum landsins? 

Sannarlega felast verðmæti í kyrrðinni og hinu ósnortna. En getum við ekki engu að síður sammælst um að íbúar strjálbýlli svæða, jafnt í þéttbýli sem strjálbýli, fái notið staðarkostanna sem þeir búa við. Jafnvel þó það feli í sér röskun og nokkra umbreytingu á umhverfinu. Búsetu í nútímasamfélagi fylgir alltaf einhver röskun. Í því sambandi þarf þó vitaskuld að fara að með mikilli gát. Það höfum við lært af fenginni reynslu og um það er í sjálfu sér lítill ágreiningur. En við verðum að leita niðurstöðu sem í senn virðir þau sjálfsögðu sjónarmið, en gefur fólkinu í landsbyggðunum líka færi á að skapa sér lífsviðurværi og tækifæri þar sem það vill kjósa sér búsetu. Því enginn okkar vill þurfa að standa í þeim sporum að þurfa að heimsækja heimkynni sín með tárvot augun.

Á þessu ári fögnum við því að ein öld er liðin frá því að við Íslendingar fengum fullveldi okkar. Engum blöðum er um það að fletta að fullveldið var einn af helstu bautasteinunum í sögu okkar og í raun lykillinn að þeirri velmegunarsókn sem hefur skilað okkur inn í hóp helstu velferðarsamfélaga samtímans. Ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir þá er sá samanburður í lang flestum tilvikum ákaflega jákvæður fyrir okkur. 

En þrátt fyrir það viljum við gera betur. Við viljum bæta hag þeirra sem hafa lökust kjörin. Við viljum efla heilbrigðiskerfi okkar, menntakerfi og margt fleira sem við viljum að sé með betri hætti en það er í dag. Við erum löngu hætt að miða okkur við einhver heimsmeðaltöl. Við viljum vera áfram í úrvalsflokki í heiminum og það er bæði raunhæft og verðugt markmið.

Fullveldi okkar og sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar er og verður lykillinn að því hvernig okkur muni vegna. Vegna þess að við erum sjálfstæð getum við sjálf tekið ákvarðanir sem ráða munu því hvernig okkur muni vegna á komandi árum. Það er auðvitað engin tilviljun að 20. öldin var mikið framfaraskeið í sögu okkar Íslendinga. Með fullveldinu leystust nefnilega úr læðingi kraftar sem áttu sinn þátt í að færa okkur svo ört fram á veginn sem raun ber vitni.

En heimsmyndin er að engu síður flókin. Þó við ráðum okkur sjálf og tökum okkar eigin ákvarðanir í krafti fullveldisréttarins, er það ekki svo að við séum engum háð. Þvert á móti. Heimsmyndin sem við okkur blasir er einmitt sú, að við verðum að eiga samskipti við aðrar þjóðir, við viljum að viðskipti milli landa séu án hindrana og ef ekki væri fyrir frjáls viðskipti þá værum við enn fátæk og smá. Drifkraftur og forsenda framfara okkar eru nefnilega viðskiptin og samskiptin við aðrar þjóðir. Við gerum samninga við önnur ríki sem jafnvel fela í sér valdaafsal, til þess að skapa okkur stöðu á meðal þjóðanna, en það gerum við sem sjálfstætt ríki. Án fullveldis og sjálfstæðis ættum við þess ekki kost að gera slíka samninga. 

Það er einmitt þessi staða lítils fullvalda ríkis í miðri alþjóðavæðingunni sem er svo mikil áskorun fyrir okkur. Um leið og alþjóðasamskipti eru forsenda velmegunar okkar, skapa þau áhættu sem við þurfum að mæta í krafti fullveldis okkar. Það stafar hætta að tungumálinu, vegna þess að erlend tungumál læðast aftan að okkur í gegn um tölvusamskipti og aðgang okkar að fjölmiðlum og fjarskiptum sem þekkja engin landamæri. Fæst leiðum við hugann að þessu í daglegu lífi okkar, en þegar við hugsum málin þá er okkur ljóst að það er fyllsta ástæða til að vera á varðbergi. Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein, sagði skáldið Snorri Hjartarson svo eftirminnilega.

Þjóðfélagið okkar hefur breyst á ótrúlega skömmum tíma. Þegar ég var að alast upp hér í Bolungarvík voru útlöndin í órafjarlægð og varla að maður sæi nokkurn tíma útlending. Þegar við ræddum um Íslendinga var okkur ljóst að það var einstaklingur sem talaði íslensku. Nú er öldin önnur. Nú er okkur sagt að á Íslandi séu töluð eitt hundrað tungumál; þjóðtungur fólks af margbreytilegum uppruna, sem þó hefur sett sig niður á Íslandi. Við sjáum þetta og þekkjum hér í Bolungarvík  þar sem margbreytileiki mannlífsins er allt annar og fjölþættari en þegar ég var að slíta hér barnsskónum. Og meðal annarra orða: Það væri gaman að velta því fyrir sér hversu mörg tungumál eru töluð hér í Víkinni á degi hverjum í daglegu tali í samskiptum fólks sem eru sannarlega Bolvíkingar.

Kæru Bolvíkingar!

Þegar við nú á einum helsta hátíðisdegi okkar, Sjómannadeginum, í elstu verstöð landsins, horfum fram á veginn, finnst mér bjart yfir að líta. Við höfum verið svo lánssöm að hér hefur fólkinu fjölgað að nýju. Mikil uppbygging hefur orðið í grundvallaratvinnuvegi okkar, sjávarútveginum, undir forystu öflugs og góðs fólks. Nýjar atvinnugreinar hafa rutt sér til rúms. Bæjarfélagið stendur styrkum fótum og fjárhagsleg geta þess til að byggja upp góða og fjölbreytta þjónustu er til staðar. Við eygjum vonandi stór tækifæri á nýjum sviðum, sem reynslan sýnir að getur gjörbreytt öllum forsendum okkar í byggðinni. Það er því ástæða til þess hlakka til framtíðarinnar. 

Ræða í Hólskirkju á sjómannadaginn, 3. júní 2018