• Raudi_krossinn

6. apríl 2020

Sjálfboðaliðar í Bolungarvík

Rauði krossinn í Bolungarvík kallar eftir sjálfboðaliðum til aðstoða einstaklinga og fjölskyldur sem eru í sóttkví eða einangrun í Bolungarvík.

Hlutverk sjálfboðaliða er að fara með mat til fólks og útvega símavin sem hringir daglega. Þeir sem hafa tök á hafi samband og láti vita af sér.

Búast má við að beiðnir taki að berast um aðstoð vegna Covid-19 í Bolungarvík. Fólk hefur verið að smitast á okkar svæði og nú þegar hefur álagið aukist á öll kerfi samfélagsins og hætta er á að fólk einangrist. Í okkar samfélagi er fámennið að vinna með okkur þar sem maður þekkir mann og hver lætur sig varða um náungann.

Við í Rauða krossinum hugum að þeim sem eru án tengslanets og eru í viðkvæmri stöðu. Beiðnir til okkar eiga að berast gegnum Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Þeir sem þurfa aðstoð hringja í það númer og Rauði krossinn í Bolungarvík fær beiðnirnar til sín.

Í síma 1717 getur fólk líka fengið sálrænan stuðning. Hjálparsíminn er vel auglýstur í fjölmiðlum og símalínum hefur verið fjölgað.

Þeir sem vilja gerast sjálfboðaliðar geta skráð sig hjá Rauða krossinum og/eða haft samband við Kristínu Ósk Jónsdóttur, formann Rauðakrossins í Bolungarvík með netfanginu  kristinosk@bolungarvik.is.