Fréttir
  • Sjór

Sjókvíaeldi á laxi í utanverðu Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum

Mánudaginn 21. mars komu fulltrúar Arnarlax til Bolungarvíkur og kynntu sér aðstæður. Af því tilefni var haldinn óformlegur fundur með bæjarstjórn Bolungarvíkur þar sem fyrirtækið kynnti áætlanir sínar.

Arnarlax hefur nú þegar tilkynnt tvær nýjar framkvæmdir til Skipulagsstofnunar um laxeldi.

Annars vegar er sótt um framkvæmd í utanverðu Ísafjarðardjúpi og hins vegar í Jökulfjörðum en þau svæði eru opin fyrir sjókvíaeldi samkvæmt auglýsingu landbúnaðarráðuneytisins nr. 460 frá 27. maí 2004.

Við utanvert Ísafjarðardjúp er sótt um þrjú eldissvæði sem eru út af Drangsvík, Eyjahlíð og Óshlíð.

Í Jökulfjörðum er einnig sótt um þrjú eldissvæði sem eru út af Öskjuhlíð, Staðarhlíð og Gathamri.

Eldið verður kynslóðaskipt þar sem eitt af eldissvæðunum er ávallt hvílt en sótt er um 10 þúsund tonn á hvoru svæði. Alls er því sótt um 20 þúsund tonn.

Arnarlax hefur óskað eftir því við Skipulagsstofnun að fyrirtækið fái óháðan, þriðja aðila til að gera umhverfismat fyrir þessar tvær framkvæmdir en umhverfismat felur meðal annars í sér að allur almenningur og hagsmunaðilar geta lagt fram athugasemdir og ábendingar við framkvæmdirnar.

Fyrirtækið mun opna skrifstofu í Bolungarvík á yfirstandandi ári með ráðningu starfsmanns.

Áætlanir gera ráð fyrir að fiskur fari í sjó árið 2018 og fyrsta slátrun verði árið 2020. Áætlanir gera einnig ráð fyrir fóðurgeymslu, sláturhúsi og athafnasvæði við Bolungarvíkurhöfn.

Fyrirtækið telur að eldi af þessu tagi henti einkar vel í Bolungarvík, bæði hvað varðar aðstæður og þekkingu bolvískra sjómanna á staðháttum. Haldin verður kynning fyrir íbúa Bolungarvíkur á næstu misserum.

Arnarlax hóf undirbúning að laxeldi á Bíldudal árið 2008 en eiginleg starfssemi hófst árið 2014. Í vetur hefur fyrirtækið verið að slátra laxi úr fyrstu kynslóð. Önnur kynslóð er í eldiskvíum og undirbúningur fyrir uppsetningu kvía fyrir þriðju kynslóð er hafinn. Hjá fyrirtækinu starfa í dag alls 40 starfsmenn en fyrirtækið rekur einnig seiðaeldisstöð í Tálknafirði.

Bæjarráð Bolungarvíkur fagnar þessum áformum og býður fyrirtækið Arnarlax velkomið til Bolungarvíkur.