Skemmtileg markaðshelgi
Yfir tuttugu söluaðilar voru á markaðstoginu á laugardeginum og hafa ekki verið fleiri í langan tíma. Allur matur seldist upp og mikið af alls kyns varningi.
Heimboð var í listaskála Kampa á fimmtudeginum þar sem hægt var að skoða þá aðstöðu sem listamenn geta fengið aðgang að til að vinna að list sinni í Bolungarvík en aðalrýmið hentar einkar vel fyrir gerð stærri listaverka. Unnið er að standsetningu íbúðar sem fylgja mun rýminu. Um kvöldið voru tónleikar KK Bands í boði í Félagsheimili Bolungarvíkur.
Á föstudeginum var Kjörbúðin með grillveislu og markaðsdagsmótið í golfi fór fram á Syðridalsvelli. Leikfyrirkomulag var Texas Scramble, eða tveir í liði, og má sjá yfirlit yfir úrslitin á vefsíðu Golfklúbbs Bolungarvíkur. Um kvöldið var skrúðganga litanna og brekkusöngur og bál í gryfjunni við Hreggnasa. Gummi Hjalta skemmti síðan gestum Einarshús með dyggri aðstoð tilfallandi skemmtikrafta.
Á laugardeginum voru ísfirsk hefðarmenni fyrst á svið sem léku á harmonikkur og fleiri hljóðfæri með þá Villa Valla og Baldur Geirmunds fremsta í flokki. Þeir vissu ekki hvað þeir áttu að spila lengi þannig að þeir spiluðu bara áfram þar til þeim var sagt að nú væri komið að næsta atriði.
Vestfirskt dragspil
Næst á sviðið var ísfirsk snót sem heitir Árný Margrét Sævarsdóttir sem lék á gítar og söng. Góður rómur var gerður að tónlist hennar og vonandi verður meira af slíku. Á eftir henni kom Between Mountains og átti góðan leik eins og við var að búast fyrir fullu félagsheimili.
Árný Margrét Sævarsdóttir
Hans og Grétar komu frá Sirkus Íslands og slógu í gegn og var greinilegt að ungir jafnt sem aldnir skemmtu sér vel.
Hans og Grétar frá Sirkus Íslands
Lokaatriðið á svið var leikritið Karíus og Baktus og mátti sjá ungmenni koma stormandi út úr félagsheimilinu í miklu uppnámi yfir þeim félögum. Var þá ekki tekið í mál að fara inn aftur nema í fylgd fullorðinna.
Karíus og Baktus
Á bíla- og tækjasýningunni fyrir utan voru einir níu Scania vörubílar sem sýndu þróunina í framleiðslu vörubíla hjá sænska fyrirtækinu Scania. Sá elsti var frá 1971 en sá yngsti frá 2017 og fleiri tæki og bílar voru til sýnis, þar á meðal einn sem var heimasmíðaður.
Bolvísk heimasæta
Þá var einnig boðið uppá að fara á hestbak og krakkamót í Mýrarbolta var haldið í fyrsta sinn sem heppnaðist vel. Tunnulestin var svo vinsæl að sum barnanna slepptu því að fara í hoppukastalana en tóku sér þess í stað far eins og fínt fólk með hinni bolvísku borgarlínu.
Borgarlína Bolungarvíkur
Síðdegis gátu gestir sótt sýningu Kómedíuleikhúsins á Einars leik Guðfinnssonar í Einarshúsi en einleikurinn var sérstaklega saminn í tilefni af 120 ára fæðingarafmæli Einars Guðfinnssonar þann 17. maí síðast liðinn.
Hljómsveitin Made-In Sveitin lék svo á barnaballi eftir kvöldmat og fullorðisballi fram á rauða nótt.
Það voru sælir söluaðilar og þreytt börn sem sofnuðu að áliðnum degi.