Fréttir
  • Covid_19

Staðan á Covid-19 í Bolungarvík

Smituðum einstaklingum í Bolungarvík fjölgaði í dag um einn frá í gær, en um er að ræða einstakling sem dvelur á hjúkrunarheimilinu Bergi.

Tveir einstaklingar á Bergi til viðbótar munu vera veikir og sýna einkenni covid-19. Beðið er niðurstöðu sýna frá þeim.

Einstaklingum í sóttkví fjölgaði verulega í dag í Bolungarvík eða um 25 einstaklinga.
Aðgerðastjórn á Vestfjörðum og Vettvangsstjórn á norðanverðum Vestfjörðum meta stöðuna í Bolungarvík og sérstaklega á dvalarheimilinu alvarlega. Þá er verið að gera rástafanir til að vernda enn frekar fatlaðan einstakling sem er í Bóli sem er áfast dvalarheimilinu Bergi.

Beðið er niðurstöðu alls 70 sýna frá Vestfjörðum sem send hafa verið suður til veirufræðideildar Landspítalans.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða er að vinna að mönnun á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í ljósi þess að margt af starfsfólki þar er komið í sóttkví.

Sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins eru að gera sig reiðubúna til að aðstoða félagsþjónustuna á norðanverðum Vestfjörðum vegna einstaklinga sem eiga erfitt um vik í þessum aðstæðum. Þá eru sjálfboðaliðarnir reiðubúnir til að aðstoða heimili og einstaklinga sem eru í sóttkví eða einangrun við að afla nauðsynja eða leysa úr öðrum brýnum verkefnum.

Verðurspá er óhagstæði fyrir Vestfirði á sunnudag og aðfaranótt mánudags. Varðskipið Þór er í Ísafjarðardjúpi og verður þar til taks ef á þarf að halda.

Aðgerðastjórn á Vestfjörðum og Vettvangsstjórn á norðanverðum Vestfjörðum ákváðu að Vettvangsstjórnin komi saman daglega, alla virka daga, nema verkefni kalli á frekari fundi.