Fréttir

Stórkemmtilegir og fróðlegir viðburðir í Bolungarvík á laugardaginn

Næst komandi laugardag verður mikið um að vera í Bolungarvík og ástæða til að hvetja sem flesta, Bolvíkinga, nágranna okkar og ferðafólk til þess að taka þátt. Veðurspáin er góð; bjart, þurrt og tólf stiga hiti.

Við, nokkur hópur í Bolungarvík, höfum látið útbúa svo kallað söguskilti sem afhjúpað verður kl. 14 á laugardaginn, nálægt Vatnsnesi, þar sem forðum stóð bær landnámskonu okkar, Þuríðar sundafyllis.

Söguskiltið er einfalt en vandað. Í knöppum texta úr Landnámu er greint frá landnámi Þuríðar. Vísað er til þjóðsagna um Þjóðólf bróður Þuríðar og erja þeirra. Þá er vitnað til texta Sigurðar Nordal, hins annálaða fræðimanns, sem setur fram tilgátu um að VöluSteinn sonur Þuríðar, kunni að hafa verið höfundur Völuspár.

Skiltið er faglega unnið, myndskreytt og textinn bæði á íslensku og ensku.

Skilti sem þetta kostar sitt, enda lögðum við áhugamenn um þetta framtak, mikla áherslu á að vandað yrði til verksins í hvívetna og fagfólk fengið til verksins.

Við leituðum til fyrirtækja í Bolungarvík og nágrenni, sem tóku undantekningarlaust vel í bón okkar um fjárhagslegan stuðning. Þessi fyrirtæki tryggðu að þetta framtak okkar varð að veruleika. Fyrir það ber að þakka. Sýnir þetta með öðru hversu mikilvægt er að eiga góð fyrirtæki í byggðalaginu okkar og nágrenni sem vilja leggja svona framtaki lið. Án þeirra aðkomu hefði ekkert af þessu orðið að veruleika.

Söguganga með Ragnari Edvardssyni

Eftir stutta athöfn frammi við Vatnsnesið þar sem skiltið verður afhjúpað, hefst söguganga um hinar fornu slóðir Þuríðar landnámskonu. Samkvæmt Landnámu nam hún Bolungarvík ásamt Völusteini syni sínum og settist að á Vatnsnesi sem er við Syðridalsvatnið, þar sem það rennur í Ósána.

Það er Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur, sem býr hér í Bolungarvík, sem leiðir okkur um hinar fornu slóðir ásamt heimamanninum Björgvini Bjarnasyni sagnfræðingi.

Vel má sjá greinilega marka fyrir því að þarna hafa verið forn híbýli. Ragnar er nú að hrinda af stað athugun á svæðinu sem leiðir betur í ljós sögu þess.

Það er mikill fengur að því að geta notið þekkingar þeirra og fá um leið innsýn í þá merku sögu sem rústirnar í Vatnsnesinu hafa að geyma. Sá sem hér slær inn texta, getur borið um það vitni að ferð um þessar slóðir með mönnum sem þekkja svo vel til er gríðarlega áhugaverð og opnar í rauninni alveg nýja sýn á sögunar. Ekki bara sögu Bolungarvíkur,

heldur og sögu lands og þjóðar. Þá ekki síst mikilvægi fiskveiða og sjávarútvegs í gegn um aldirnar og þýðingu þessara atvinnugreina á framvindu Íslandssögunnar; raunar langt umfram það flestir gera sér grein fyrir.

Hvernig rötum við fram að Vatnsnesi?

Fyrir þá sem ekki eru staðkunnugir er rétt og skilt að gefa stutta leiðarlýsingu;

Ekið er fram Syðridalinn, meðfram golfvellinum og þar til fjárrétt blasir við framundan og til vinstri handar, við vatnið þar sem áin rennur úr Syðridalsvatninu. Þar er beygt til vinstri að fjárréttinni, og haldið áfram vegslóðann/troðninginn í átt að Ósánni. Þar fer fram stutt athöfn þar sem söguskiltið verður afhjúpað og að því búnu tekur Ragnar Edvardsson við og fræðir okkur um hina stórmerku sögu sem svæðið hefur að geyma, en við fæst kunnum almennileg skil á.

Vonandi koma sem allra flestir og taka þátt í þessum viðburði og fræðast um leið um stórmerka sögu.

Einar Kristinn Guðfinnsson, fyrir hönd hópsins sem unnið hefur að gerð söguskiltisins.


Fréttir

    Enginn Skjalaflokkur er tengdur.

Fréttir

    Enginn Skjalaflokkur er tengdur.