Fréttir
  • Ráðhús Bolungarvíkur

Þjónustumiðstöð opnuð í Ráðhúsinu

Í þjónustumiðstöðinni er bæjarskrifstofa Bolungarvíkurkaupstaðar, afgreiðsla Íslandspósts, gjaldkeraþjónusta Landsbankans og fulltrúi Sýslumanns Vestfjarða. 

Þann 4. september 2015 sameinaðist Sparisjóður Norðurlands, áður Sparisjóður Bolungarvíkur, Landsbankanum og fyrir lá að starfssemi bankans yrði flutt til Ísafjarðar. Bolungarvíkurkaupstaður hafði þá frumkvæði að viðræðum milli þeirra aðila sem standa að þjónustumiðstöðinni en þeir eru Bolungarvíkurkaupstaður, Íslandspóstur, Landsbankinn og Sýslumaðurinn á Vestfjörðum. 

Viðræðurnar leiddu til samkomulags sem fól í sér að grundvallar þjónusta aðilanna yrði áfram til staðar í Bolungarvík og að bæjarskrifstofan myndi flytja af efri hæð Ráðhússins á neðri hæð þess. Samkomulagið fól einnig í sér makaskipti bæjarins og Landsbankans á neðri hæð Ráðhússins, í eign bankans, og annarri hæð Aðalstrætis 21, í eign bæjarins. Aðalstræti 21 er því nú að fullu í eigu Landsbankans og Ráðhúsið er í sameiginlegri eign Bolungarvíkurkaupstaðar og ríkisins. 

Einnig var ákveðið að gera breytingar á fyrstu hæð Ráðhússins svo það hentaði betur þörfum allra aðila, auk þess sem farið var í nauðsynlegt viðhald á húsnæðinu. Þá voru líka gerðar breytingar til að tryggja gott aðgengi hreyfihamlaðra. Breytingunum lauk nú í byrjun júní.  

Framkvæmdirnar eru að langstærstum hluta fjármagnaðar með 10 milljóna króna fjárframlagi sem fékkst frá ríkinu á fjárlögum 2016 eftir að Bolungarvíkurkaupstaður lagði fram tillögu þess efnis við fjárlaganefnd Alþingis á fundi með nefndinni sl. haust. 

Opnunin er í boði Þjónustumiðstöðvarinnar og eru allir velkomnir, jafnt ungir sem aldnir, og gefst íbúum og gestum kostur á að skoða húsnæðið eftir breytingarnar.