Fréttir
  • 1000-

Þúsundasti Bolvíkingurinn fæddist á fimmtudaginn

Þúsundasti Bolvíkingurinn, stúlkubarn, fæddist á fimmtudag. Móðirin heitir Rúna Kristinsdóttir og faðirinn heitir Gunnar G. Samúelsson og er hin nýfædda stúlka annað barn þeirra. Rúna  starfar hjá Endurskoðun Vestfjarða og Gunnar hjá Fiskmarkaði Vestfjarða.

 Á fundi 17. apríl bókaði  Bæjarstjórn Bolungarvíkur eftirfarandi:

„13. apríl síðastliðinn fæddist stúlkubarn í Bolungarvík sem er íbúi númer þúsund í sveitarfélaginu. Þessi viðburður markar tímamót fyrir sveitarfélagið og Vestfirði og sýnir skýrt þann kraft og framtíðarsýn sem býr í samfélaginu. Framundan í Bolungarvík er uppbygging og vöxtur. Bæjarstjórn óskar fjölskyldu hins nýja íbúa til hamingju með titilinn og felur bæjarstjóra að koma til þeirra hamingjuóskum og þakklætisvott frá sveitarfélaginu.“

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkur hefur hitt fjölskylduna og fært þeim þakklætisvott frá sveitafélaginu: ,,Ég færi ykkur og fallegu dóttir ykkar mínar bestu óskir og fyrir hönd Bolungarvíkurkaupstaðar óska ég ykkur til hamingju með þúsundasta íbúann'' 

Bolungarvík hefur stefnt að því að fjölga íbúum í þúsund undanfarin ár. Verkefninu Bolungarvík 1000+ er lokið og þetta er hamingjudagur fyrir Bolvíkinga enda er búið að bíða lengi eftir þessu.