Fréttir
  • Leidbeiningar_mynd

Um sóttkví barna og heimila þar sem sumir eru í sóttkví

Nú fer í hönd krefjandi tími fyrir allt samfélagið og ráðlegt að allir kynni sér vel leiðbeiningar sem er vísað á hér á vefnum og leiðbeiningar á fleiri vefjum eins og covid.is.

Mikið af efni hefur verið og er að koma á vefinn um Covid-19 og reynt er að miðla því eins og hægt er hér á síðunni og á Facebook síðu sveitarfélagsins

Eftirfarandi leiðbeiningar eru frá sóttvarnarlækni þar sem fjallað er um börn í sóttkví og heimili þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki.

Börn í sóttkví – leiðbeiningar og tillögur til forráðamanna

Það er mörgum erfitt að vera stíað frá vinum og ættingjum vegna sóttkvíar. Það er mögulega enn erfiðara fyrir börn, sérstaklega ung börn, sem ekki skilja vel tilganginn með slíkum ráðstöfunum.

Börn sem fara á milli heimila að öllu eðlilegu ættu ekki að gera það meðan á sóttkví barnsins eða annars á heimilinu stendur yfir, það býður upp á að smit dreifist. 

Aðstæður fjölskyldna eru misjafnar og mögulega erfitt eða ekki hægt að forðast slíkt, en leita ætti allra leiða til að barnið sé á sama stað og umgangist aðeins þá sem óhjákvæmilegt er meðan á sóttkví stendur. Sóttkví mun taka enda og vonandi er hægt að bæta upp misskiptingu í samveru og álagi á milli heimila eftir að sóttkví lýkur.

Forráðamenn barna þurfa líka að huga að eigin þörfum og reyna að eiga gæðastundir saman eða með sjálfum sér við þessar óvenjulegu og mögulega ógnvekjandi aðstæður.

Heimili þar sem sumir eru í sóttkví

Varðandi heimili þar sem sumir eru í sóttkví en aðrir ekki.

Börn sem hafa þroska og getu (t.d. sérsalerni) til að sinna eigin hreinlæti eiga að halda viðeigandi fjarlægð við foreldra sem eru í sóttkví og eins við skólafélaga sem geta áfram sinnt námi í skólastofu.

Foreldrar stálpaðra barna í sóttkví sem geta haldið viðeigandi fjarlægð frá börnunum meðan á sóttkví stendur geta sinnt áfram vinnu á vinnustað ef fjarvinna er ekki möguleg.

Ef börnin hafa ekki þroska eða getu til að virða þær ráðstafanir sem eru forsenda þess að hluti heimilisfólks geti verið í sóttkví, þar sem aðrir búa sem ekki eru í sóttkví, þarf allt heimilið að fara í sóttkví eða þeir sem ekki eru í sóttkví að fara annað um leið og sóttkví kemur til.