• Aðalskipulag

27. september 2019

Vefsjá fyrir aðalskipulagsvinnu

Sett hefur verið upp vefsjá sem ætlað er að auðvelda aðkomu íbúa að vinnu við nýtt aðalskipulag Bolungarvíkurkaupstaðar.

Hafin er heildarendurskoðun á Aðalskipulagi Bolungarvíkur 2008-2020. Gildandi aðalskipulag var samþykkt í bæjarstjórn Bolungarvíkur 2. maí 2011 og hefur ekki verið breytt síðan.

Samkvæmt skipulagslöggjöf ber sveitarfélagi að kynna aðalskipulagsvinnuna og afurðir hennar á þremur stigum í ferlinu.

  1. Kynna skal skipulags- og matslýsingu í upphafi vinnunnar og síðar ber að
  2. kynna drög að skipulagstillögu á vinnslustigi.
  3. Í lok vinnunnar auglýsir sveitarfélagið aðalskipulagstillöguna eftir að bæjarstjórn hefur samþykkt hana.

Ákveðið var í upphafi skipulagsvinnunnar að hafa allt ferlið opið og gegnsætt og ganga þannig mun lengra í samráði og kynningu en krafist er í skipulagslöggjöfinni.

Áhersla er lögð á beina þátttöku íbúa og hagsmunaaðila við gerð skipulagstillögunnar. Markmiðið er að afla sem bestra gagna og gefa sem flestum tækifæri til að koma sjónarmiðum á framfæri.

Skipulags- og matslýsingin var samþykkt í sveitarstjórn þann 9. apríl 2019 og haldinn var íbúafundur í kjölfarið þann 13. júní þar sem lýsingin var kynnt.

Íbúar eru hvattir til að fylgjast með framvindunni og taka þátt í mótun stefnunnar.

Það er hægt meðal annars með því að:

  • Koma að málum með því að upplýsa um staðhætti og aðstæður á því svæði sem er til umfjöllunar.
  • Koma að mótun hugmynda um útfærslu byggðar og framkvæmda.
  • Leggja til að aðrar útfærslur verði skoðaðar eða umhverfismetnar.
  • Koma með athugasemdir sem lúta að áhrifum þeirra áforma sem kynnt hafa verið.

Hægt er að senda inn athugasemdir og ábendingar á eftirfarandi netföng:

 

  • Byggingarfulltrúi: Finnbogi Bjarnason (finnbogi@bolungarvik.is)
  • Skipulagsráðgafi: Gunnar Páll Eydal (gpey@verkis.is)