Fréttir
  • Bolungarvík. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Verðmæti húsnæðis

Fasteignamat íbúða hækkar mest í Bolungarvík yfir landið eða um 30,7%, í Kjósarhreppi um 29,4% og í Ísafjarðarbæ um 23,6%. 

Almenn breyting á fasteignamati
Almennt hækkar fasteignamat á landinu um 7,4% árið 2022 frá fyrra ári. Það eru því augljóslega einhverjar breytingar á þeim svæðum sem eru að hækka verulega umfram hina almennu hækkun. Það er líklegt að þessi hækkun hér í Bolungarvík og á Ísafirði sé í tengslum við fyrirhugaða atvinnuuppbyggingu í fiskeldi.  

Myndin hér neðar sýnir hækkun hvers árs frá fyrra ári og að fasteignagjöld í Bolungarvík hafa hækkað umtalsvert. Það merkir að þeir sem eiga fasteignir í Bolungarvík þurfa að greiða hærri fasteignagjöld sem almennt nemur 22,8% frá fyrra ári. 

Það þýðir líka að fasteignir í Bolungarvík, og almennt á Vestfjörðum, eru verðmeiri árið 2022 en þær voru árið 2021, hlutfallslega miðað við aðrar fasteignir landsins.  

Þetta þýðir einnig að eignarhluti eiganda fasteignar í Bolungarvík hefur hækkað umtalsvert sem gæti til dæmis þýtt betri lánakjör hjá lánastofnun. Þannig að það gæti verið tilefni til að fara yfir húsnæðislánin í ljósi þessarar hækkunar. 

Fast_almenn_breyting_a_fasteignamati_2022

Skatthlutfallið sem greitt er af fasteignamati húss og lóðar er þó mismunandi efir því hvaða skattflokki húsnæðið tilheyrir. Þannig er greitt 0,625% af íbúðarhúsnæði en 1,650% af atvinnuhúsnæði. Sjá fasteignagjöld 2022

Sérbýli og meðalfermetraverð
Hér eru upplýsingar um sérbýli sem finna má á vefnum verdsja.skra.is. Gengið er út frá sérbýli sem er 90-250 m2 að stærð og byggt á árunum 1920-2021. 

Á myndinni má sjá að meðalfermetraverð sérbýlis í Bolungarvík árið 2021 er 191.912 kr. á fermeter. Gögnin byggja á kaupsamningum sem gerðir hafa verið ár hvert um húsnæði. Árið 2021 voru gerðir 16 kaupsamningar vegna húsnæðis í Bolungarvík en gögn um samninga 2022 eru ekki tiltæk. Í lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna skal miða fasteignamat við gangverð sem ætla má að eign hefði í kaupum og sölum í febrúarmánuði næst á undan matsgerð, fasteignamat fyrir árið 2022 miðast þannig við gangverð í febrúar 2021.

Þrátt fyrir þessa miklu hækkun er það umtalsvert undir byggingarkostnaði slíks húss. Byggingarkostnaður einbýlishúss (sérbýli) á einni hæð úr steinsteypu, 165 fermetrar að stærð, eru tæpar 89 milljónir eða 536.341 kr. fyrir hvern fermetra (Byggingarlykill Hannarrs frá 1. októbert 2021, s. 148). Raunverulegur kostnaður er þó auðvitað breytilegur eftir því hvaða efni eru notuð til hússins og hve mikið eigandi getur unnið að byggingu sjálfur.

Fast_medalfermetraverd_serbyli_Vestf_1921

Þróun meðalfermetraverðs
Myndin hér neðar sýnir þróun meðalfermetraverðs fyrir sérbýli af stæðinni 90-250 fm2, byggt 1920 eða síðar. Af henni má sjá að Vestfirðir eru vel undir meðaltali og auðsætt að einhversstaðar á landinu er húsnæði sem er vel yfir þessu sama meðaltali. 

Landsmeðaltalið árið 2021 er 372.988 kr. á fermeter sem er 163.353 kr. á fermeter undir raunverulegum byggingarkostnaði, samanber hér ofar. Landsmeðaltalið vantar 30% upp í byggingarkostnað ef við leyfum okkur að bera þessar tölur saman. Það kann að vera eðlilegt. Þróun meðalfermetraverðs á Vestfjörðum virðist vera nokkuð í takt við þróun landsmeðaltals. Í ljósi atvinnuuppbyggingar á Vestfjörðum má þó reikna með áframhaldandi hækkun fasteignamats á Vestfjörðum umfram hækkun landsmeðaltals.  

Fast_medalfermetraverd_serbyli_1920_1921

Hvað er fasteignamat?
Fasteignamat er mat á verðmæti húss og lóðar sem áætlað er út frá gangverði svipaðra eigna á markaði. Fasteignamat endurspeglar þannig fremur framboð og eftirspurn en eiginleg gæði eða efnislegt verðmæti fasteignar þótt auðvitað skipti það líka máli. Fasteignamat er uppfært árlega í samræmi við þróun fasteignaverðs.

Eftirtalin opinber gjöld eru reiknuð út frá fasteignamati og hækka því eða lækka í samræmi við fasteignamatið.

  1. Fasteignagjöld eða fasteignaskattur.
  2. Erfðafjárskattur.
  3. Stimpilgjöld vegna þinglýsingar kaupsamninga.
  4. Vatnsgjald.
  5. Holræsagjald.
  6. Lóðarleiga.

Heimildir