Fréttir
  • Útsýnispallur á Bolafjalli

Vinningstillaga um útsýnispall á Bolafjalli

Vinningstillagan reyndist koma frá teymi Landmótunar sf., Sei ehf. og Argos ehf. Verkfræðiráðgjöf veitti S Saga ehf.

Keppnin var haldin í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta og óskuðu 16 hönnunarteymi eftir því að taka þátt í samkeppninni og af þeim uppfylltu 15 skilyrði hönnunarteyma. Þrjú teymi voru dregin af handahófi í október og skiluðu þau inn tillögum að hönnun á útsýnispalli í desember.

Í áliti dómnefndar kemur fram að vinningstillagan sé látlaus en afar sterk hugmynd sem virðir umhverfið og ber það ekki ofurliði.

Vinnings3

Tillagan uppfyllir markmið samkeppninnar um að gera útsýnisstaðinn á Bolafjalli að eftirsóknaverðum ferðamannastað á Vestfjörðum og þó víðar væri leitað. Hönnun pallsins býr yfir eiginleikum bæði varðandi fagurfræði og staðsetningu til þess að pallurinn verði einstakur í sínum flokki. Hann fellur vel að umhverfinu og endurspeglar í hlutföllum og útfærslu mikilfengleika þess.

Dómnefndina skipuðu Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, og var hann formaður nefndarinnar, Ragnhildur Skarphéðinsdóttir, landslagsarkitekt MLI FÍLA, fh. FÍLA og Ulla Rolfsigne Pedersen, landslagsarkitekt FÍLA, fh. Verkís. Ritari dómnefndar var Hallgrímur Örn Arngrímsson, jarðverkfræðingur, verkefnisstjóri hjá Verkís.

Það er ljóst að útsýnispallur á Bolafjalli mun verða eitt af helstu kennileitum í ferðaþjónustu á Vestfjörðum og verður án efa einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Vestfjörðum og þótt víða væri leitað.

Vinningshafar frá vinstri: Jóhann Sindri Pétursson og Aðalheiður E. Kristjánsdóttir hjá Landmótun, Shruthi   Basappa og Einar Hlér Einarsson hjá Sei. Mynd Helgi Hjálmtýsson.

Vinningsteymið frá vinstri:
Jóhann Sindri Pétursson og Aðalheiður E. Kristjánsdóttir hjá Landmótun,
Shruthi Basappa og Einar Hlér Einarsson hjá Sei.

Farið var með vinningshafa og fréttamenn á snjóbíl björgunarsveitarinnar Ernis upp á Bolafjall eftir kynninguna og þar var ægifagurt vetrarveður.

IMG_1053

IMG_1122

Landmótun er teiknistofa landslagsarkitekta og skipulagsfræðinga og veitir alhliða ráðgjöf á sviði skipulags og hönnunar. Stofan var stofnuð 1994 og er í dag staðsett í Kópavogi með 14 starfsmenn. Verkefnin spanna allt frá stórum skipulagsvæðum í óbyggðri náttúru, skipulagi fyrir sveitarfélög og stefnumótun og hönnun í byggðu umhverfi; götum, torgum, görðum og leiksvæðum. Í verkum er lögð áhersla á að móta öruggt og innihaldsríkt umhverfi sem tekur mið af aðstæðum á hverjum stað, vinnur með samspil mannlífs og náttúru, stuðlar að sjálfbærni og eykur lífsgæði. Stefna Landmótunar er að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum og vistvænn vinnustaður. Áhersla er lögð á fagleg vinnubrögð og umhverfisstefnu í anda sjálfbærrar þróunar.

Sei er arkitektastofa sem hefur verið starfrækt frá árinu 2015 og var stofnuð af Shruthi Basappa og Einari Hlé Einarssyni. Sei er ung stofa með áherslur á innsæi og tilfinninganæmi notandans en notfærir sér jafnframt forritunarferla og algóritma í hönnun. Opnar rannsóknir og tilraunastarfsemi stýrir stofunni í átt að hönnunarlausnum. Áhugasvið Sei stendur jafnfætis á sjálfsprottnum timburhjöllum fortíðarinnar sem og framsæknustu tilraunabyggingum nútímans.

ARGOS eða Arkitektastofa Grétars og Stefáns var upphaflega stofnuð 1991 en stendur raunar á enn eldri merg. Þó að stofan sé lítil hafa verkefnin verið fjölmörg og fjölbreytt gegnum árin, skipulagsverkefni, skólabygginggar, safnahús, endurgerðir friðaðra eldri húsa, breytingar og endurbætur, tilgátur um byggingar frá víkingaöld allt frá svæðisskipulagi ogtil deiliskipulags, þjónustuhús á ferðamannastöðum, nýbyggingar í eldri hverfum m.a. í miðbæ Reykjavíkur.

Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) var stofnað í Reykjavík 24. febrúar 1978. Í FÍLA eru yfir 80 félagsmenn, allstaðar á landinu. Félagsmenn vinna á breiðu sviði við hönnun, skipulag og stjórnun bæði í þéttbýli og dreifbýli. Landslagsarkitektar eru sérfræðingar sem vinna við það að varðveita náttúru og menningarlandslag, að gera manngert umhverfi í þéttbýli og dreifbýli vistlegt, hagkvæmt og fallegt – án þess að ganga að óþörfu á náttúruleg gæði.