• Jökulfirðir

18. júlí 2017

Yfirlýsing vegna laxeldis á Vestfjörðum

Neðangreind sveitarfélög á Vestfjörðum lýsa vilja sínum til þess að á Vestfjörðum byggist upp kraftmikið laxeldi á næstu árum. 

Með uppbyggingu fiskeldis og styrkingu innviða á Vestfjörðum verði stuðlað að sjálfbærri fjölgun íbúa í landshlutanum.

Sveitarfélögin hafa mótað sér sameiginlega stefnu um sjálfbæra þróun í umhverfislegu og félagslegu tilliti og hafa þegar hlotið silfurvottun EarthCheck. Mörkuð hefur verið sú stefna að Vestfirðir verði sjálfbært samfélag og umhverfisvænt þar sem áhersla er lögð á að vernda sögu, minjar og landslag fyrir komandi framtíð.

Það er álit sveitarfélaganna að laxeldi teljist umhverfisvænt með tilliti til þess hve litlu álagi það veldur á auðlindir og loftlagsmál Jarðar í samanburði við annað eldi. Landnotkun og kolefnisfótspor laxeldis er þannig margfalt minna en af eldi kjúklinga, svína eða nautgripa. Þar að auki verður álagi laxeldis dreift þannig að umhverfi sjávarins ráði við það og ummerki verði afturkræf, á grunni mats Hafrannsóknarstofnunarinnar á burðarþoli og í samræmi við reynslu annarra þjóða.

Sveitarfélögin telja einsýnt að laxeldi muni fjölga stoðum atvinnulífs á Vestfjörðum og styrkja þær og dreifa þannig fjöreggjum byggðanna í fleiri körfur. Sveitarfélögin gera kröfu um að starfræksla eldisins verði til fyrirmyndar og byggist á þeirri þekkingu sem aðrar þjóðir hafa aflað, m.a. með því að læra af mistökum liðinna áratuga. Eldinu þarf nauðsynlega að fylgja uppbygging innviða sem tryggt getur möguleika fiskeldis og annarra atvinnugreina til vaxtar og framþróunar. Einnig þarf að tryggja eðlilega hlutdeild sveitarfélaganna í opinberum tekjum vegna fiskeldis. 

Það er krafa sveitarfélaganna að afgreiðsla á umsóknum um laxeldisleyfi verði unnin á þeim hraða sem lög og góð stjórnsýsla mæla fyrir um, en verði ekki dregin mánuðum og árum saman undir yfirskyni manneklu eða fjárskorts.

Gríðarleg verðmæti munu skapast í íslensku hagkerfi af laxeldinu. Sveitarfélögin telja að vel útfært laxeldi í strandsjó Vestfjarða þjóni hagsmunum Vestfirðinga, íslensku þjóðarinnar og vistkerfa Jarðarinnar.

Ísafjarðarbær
Vesturbyggð
Bolungarvíkurkaupstaður
Tálknafjarðarhreppur
Súðavíkurhreppur
Strandabyggð
Reykhólahreppur